Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[17:45]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessari viðbót sem hæstv. utanríkisráðherra nefndi í sínu andsvari varðandi framlög í græna loftslagssjóðinn sem er gríðarlega mikilvægt. Ég er sammála hæstv. utanríkisráðherra um að við höfum mikla reynslu til að deila í okkar þróunarsamvinnu, m.a. af skógrækt, uppgræðslu lands o.s.frv. Gleymum því ekki að Ísland er stærsta eyðimörk í Evrópu. Það er margt sem við höfum fram að færa sem getur vel nýst inn í þróunarsamvinnuna.

Varðandi jafnréttismálin vil ég líka fagna þessum kynjavinkli inn í loftslagsáherslurnar í þróunarsamvinnunni. Það er vel. Það er mikilvægt. Við vitum að valdefling kvenna er eitt af áhrifaríkustu tækjum og tólum sem við höfum inn í þróunarsamvinnu. Það eru ótrúlegir hlutir sem valdefling kvenna og markviss stefna þegar kemur að henni gera í þróunarsamvinnu. Bara það að efla aðgengi kvenna að vinnustöðum sínum eða aðgengi stúlkna að skólanum sínum. Þetta eru kannski fyrir okkur litlar aðgerðir en gríðarlega mikilvægar.

Ég hef áður nefnt það í ræðustól Alþingis að líta beri til utanríkisstefnu Svía þegar kemur að jafnréttismálunum. Við erum með jafnréttismálin mjög ofarlega í okkar utanríkisstefnu. Svíar hafa gert enn betur og hafa hreinlega sagt að þeirra utanríkisstefna sé femínísk og þróunarsamvinnustefnu þeirra sé femínísk, sem er mjög vel. Ég efast ekki um að hæstv. utanríkisráðherra hefur kynnt sér það mjög vel og muni gera það í framhaldinu.