Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[17:52]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þessa yfirferð. Það er margt ágætt í þessari tillögu sem er stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu okkar Íslendinga frá 2019–2023. Ég vil kannski nálgast þetta aðeins með óhefðbundnum hætti og fjallað svolítið um eitt af okkar áherslulöndum sem er Palestína. Ég fagna því að svo sé.

Í kaflanum Áherslur og markmið er fjallað um jafnrétti kynjanna og mannréttindi og fleira sem lagt er að leiðarljósi. Síðan er komið inn á frið á alþjóðavettvangi, þ.e. lögð er áhersla á að við stuðlum að friði á alþjóðavettvangi. Þetta finnst mér mjög gott mál, því ég held að þarna séu mikil og stór tækifæri fyrir okkur Íslendinga. Ég minnist þess að hæstv. utanríkisráðherra átti fund í byrjun ársins með aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í New York. Þá sagði hæstv. ráðherra, mig minnir af þessu tilefni, að Sameinuðu þjóðirnar væru okkur mjög mikilvægar og mikilvægari en margan grunar. Ég tek heils hugar undir þetta með hæstv. ráðherra. Mér finnst gott að hann skyldi koma þessu á framfæri.

En ég vil líka vekja sérstaklega athygli á því sem framkvæmdastjórinn sagði á þessum fundi, og það kom fram í fjölmiðlum að hluta til. Hann lagði áherslu á að Ísland gæti haft mjög mikil áhrif á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og það væri oft litið til Íslands sem sáttasemjara, enda væri Ísland forysturíki á sviði jafnréttis og mannréttinda sem njóti trausts. Það er lykilhugtak í þessu öllu saman, það er að njóta trausts. Þetta er afar ánægjulegt að mínu mati og hefði mátt gefa þessu meiri gaum þegar þessi orð féllu í byrjun ársins. Ég tel að við eigum einmitt að líta á þessi orð sem tækifæri til að gera okkur sýnilegri á alþjóðasviðinu, sýnilegri á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og sýna frumkvæði í alþjóðamálum. Þá vil ég tengja það sérstaklega því sem kemur fram í stefnunni, þ.e. friði á alþjóðavettvangi.

Ég nefndi traustið áðan. Traust er nefnilega afar mikilvægt í sátta- og friðarumleitunum á alþjóðavettvangi. Þar sem Ísland er herlaust land og land án vopnaframleiðslu styrkir það stöðu okkar verulega í þessum efnum.

Ég vil nefna í þessu samhengi stórt mál á alþjóðavettvangi þar sem ég tel að við gætum látið til okkar leiða, það eru deilur milli Ísraelsmanna og Palestínumanna. Ég segi það ekki síst vegna þess að ég starfaði þarna um tíma og þekki vel velvild Ísraelsmanna og Palestínumanna í okkar garð. Það er svolítið lykilatriði í því að vinna að friðarumleitunum og í raun og veru forsenda þess að ná árangri, að það ríki sem tekur að sér að miðla málum og reyna að stuðla að friði njóti fullkomins trausts hjá báðum aðilum. Við sjáum það bara að Bandaríkjamönnum hefur mistekist að stilla til friðar í Miðausturlöndum. Stór hluti af því er að Palestínumenn hafa aldrei treyst þeim fyllilega. Svo þegar við horfum til Evrópusambandsins þá hefur því ekki heldur tekist að ná einhverjum árangri í þessum efnum vegna þess að það er bara staðreynd að Ísraelsmenn hafa aldrei treyst því fyllilega.

Síðan þekkjum við náttúrlega með Noreg, Noregur hefur haft mikinn áhuga á því að koma að friðarferlinu í Miðausturlöndum og lagði sig mjög fram um það á sínum tíma með Óslóarsamningunum. En því miður er það bara þannig að þessir samningar mistókust. Frá því sem ég þekki þegar ég var þarna niður frá, þá er almennt viðhorf hins almenna Palestínumanns til þessa framlags Noregs neikvætt. Þetta sýnir að í þessu eru atriði sem skipta verulegu máli og það er traustið.

Við þekkjum það öll að Ísland gegndi mjög mikilvægu hlutverki við stofnun Ísraelsríkis 1948. Samskipti ríkjanna voru lengi vel mikil en hafa náttúrlega minnkað verulega á liðnum árum eins og við þekkjum, ekki síst vegna hernáms Ísraels á Palestínumönnum sem við fordæmum. En ég fullyrði það hér að Ísraelsmenn bera mikla virðingu fyrir Íslandi og líta á okkur sem vinaþjóð. Síðan eins og við þekkjum öll þá var það í lok árs 2011 sem Ísland varð fyrsta ríkið í Vestur- og Norður-Evrópu til að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki. Við höfum þannig traust gagnvart þessum aðilum og það er verulegt tækifæri eins og ég nefndi hér fyrr til þess að miðla málum. Ég fagna því að það kemur fram í þessari stefnu, áhersla á að stuðla að friði á alþjóðavettvangi. Það væri gaman að heyra það frá hæstv. utanríkisráðherra hvað hann sæi fyrir sér í þeim efnum. Þetta kemur hér fram og hann gæti kannski aðeins skýrt það nánar.

Varðandi þetta að lokum þá þekkjum við það að litla Ísland er lítið land, en það er stórt land þegar kemur að friðarmálum. Það hefur einmitt framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna staðfest.

Síðan langaði mig aðeins að koma inn á það sem stendur á bls. 3, um uppbyggingu félagslegra innviða og störf í þágu friðar. Þar er minnst á aðgerðir gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi. Ég fagna þessari áherslu. Ef við horfum til Palestínu aftur þá held ég að þarna gætum við lagt mikið af mörkum. Ef við horfum t.d. til Gaza þá hafa rannsóknir sýnt þar að heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi, ofbeldi gegn konum og börnum, er mjög mikið á því svæði. Það eru ýmsar ástæður fyrir því. Það er náttúrlega í fyrsta lagi hersetan, hernám Ísraelsmanna, og stríðin sem hafa geisað þarna. Síðan er aðstoðin afar takmörkuð sem fólk getur leitað sér, konur og börn, sérstaklega konur, einfaldlega vegna stjórnarfarsins sem er á svæðinu. Auk þess þekkjum við að bara viðhorfið til kvenna á Gaza er með öðrum hætti en t.d. á Vesturbakkanum, vegna þess að Hamas-samtökin sem stjórna þar líta þetta ekki eins alvarlegum augum og t.d. stjórnvöld á Vesturbakkanum. Þarna er tækifæri fyrir okkur sem við ættum svo sannarlega að skoða nánar.

Síðan er hér fjallað um að íslensk stjórnvöld virði forystuhlutverk Sameinuðu þjóðanna. Ég tek heils hugar undir það.

Þá langar mig kannski aðeins að koma að því sem varðar flóttamenn. Við getum einnig aðstoðað á svokölluðum heimasvæðum flóttamanna, þ.e. í nágrenni við stríðsátök, vegna þess að margsinnis búið að sýna fram á það að við getum hjálpað mun fleirum á sínu heimasvæði en að taka á móti flóttamönnum hér. Ég er að sjálfsögðu hlynntur því að við tökum á móti flóttamönnum hér og höfum bara ákveðinn kvóta í þeim efnum, en það er hægt að gera ótrúlega góða hluti bara með beinum fjárframlögum til þeirra stofnana sem eru á þessum stríðshrjáðum svæðum, stofnana Sameinuðu þjóðanna. Ég hvet til þess að það verði einnig skoðað.

Ég sé að tíminn er nú langt komin, en mig langaði að spyrja að lokum hæstv. ráðherra um áhersluland okkar, Afganistan, hverjar okkar áherslur eru þar sérstaklega. Ég gat ekki séð að það kæmi sérstaklega fram.