Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[18:05]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég tek heils hugar undir það með honum að það sem við tökum okkur fyrir hendur eigum við að gera vel. Vissulega er það stórt og mikið mál að vera friðarflytjandi á erlendum vettvangi, en við höfum hins vegar afar góðan grunn og það er hægt að undirbúa slíkt með ákveðnum leiðum. Setan í mannréttindaráðinu er vissulega ein af þeim. Ég fagna því.

Mig langaði aðeins í lokin að benda á að á bls. 9 er fjallað um íslenska friðargæsluliða og hlutverk sem þeir geta tekið að sér sem borgaralegir starfsmenn, það er m.a. uppbygging að bættu stjórnarfari. Mér finnst gott að fá þetta hér inn vegna þess að ef ég held mig aðeins við Palestínu þá hafa verið gerðar skoðanakannanir á vegum rannsóknaseturs þar í landi sem heitir AMAN á því hvaða þjóðfélagsverkefni hinn almenni borgari telur vera brýnust. Niðurstaðan var sú að brýnasta verkefnið væri efnahagsmálin, en í öðru sæti var barátta gegn spillingu í stjórnkerfinu. Þetta er mjög athyglisvert. Því miður er spilling víða. Hún er í Palestínu eins og öðrum löndum.

Hins vegar kemur líka fram að það virðist ekki vera nægilegur áhugi meðal stjórnvalda í Palestínu til að vinna gegn spillingu. Þar kemur líka fram að háskólarnir í Palestínu hafa mikinn áhuga á að setja á laggirnar sérstök námskeið þar sem farið er yfir baráttuna gegn spillingu innan stjórnkerfisins og almennt um góða stjórnarhætti. Mig langaði að koma þessu að vegna þess að ég tel að þarna gætum við orðið að liði, jafnvel kostað einhver námskeið og aðstoðað í þessum efnum, því að það er jú þannig að það á að vera lítil spilling í stjórnkerfinu á Íslandi. (Forseti hringir.) Við eigum að nýta okkur það sem tækifæri líka.