Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[18:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra greinargott og gott svar. Ég vil líka fagna þessum nýju áherslum varðandi landgræðslu, að það sé orðið sérstakt áherslusvið. Hér á landi er mjög góð þekking á landgræðslu og sjálfsagt að við komum henni á framfæri. Ég fagna þessari nýju áherslu.

Mig langar síðan í lokin að koma aftur að friðargæsluliðunum, þessum borgaralegu starfsmönnunum sem við erum að senda, sem ég styð heils hugar og hefur gefið góða raun. Ég myndi vilja að við legðum meiri áherslu á heilbrigðisstarfsfólk. Það er mikil þörf fyrir það á þessum svæðum. Þegar ég starfaði þarna niður frá þá heimsótti ég einu sinni heilsugæslustöð á Gaza. Þar er það þannig að hver læknir tekur á móti 110 sjúklingum á dag. Það eru áætlaðar þrjár mínútur á hvern sjúkling. Álagið er gífurlegt á þessum stöðum og ég held að við getum svo sannarlega orðið þarna að liði. Við eigum náttúrlega alveg frábært heilbrigðisstarfsfólk, líka í fæðingarþjónustu og öðru slíku, ljósmæður. Það er mikil þörf á þessu sviði. Ég vil bara í lokin hvetja hæstv. ráðherra til þess að skoða þennan möguleika, ég veit að það stendur til að auka þetta eitthvað, það eru einhverjir samningar væntanlega við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina hvað þetta varðar. Það er mjög gott mál. Í þessum málaflokki getum við svo sannarlega látið gott af okkur leiða.