Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[18:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni eins og öðrum fyrir góða og málefnalega ræðu. Hv. þingmaður ræddi ýmislegt, en ég vildi nefna það sem hann sagði varðandi atvinnulífið. Ég ætla þá bara að nota tækifærið og segja aðeins frá því hvernig við höfum nálgast það mál. Þróunarmarkmið í viðkomandi landi þurfa ávallt að vera meginmarkmið stuðnings og öll aðstoð sem veitt er þarf að vera í samræmi við áætlanir og þarfir viðtökulands. Það eru skýrar reglur þróunarsamvinnunefndar OECD, DAC-nefndarinnar, um það hvers konar stuðning gjafaríki geta talið fram sem hluta af þróunaraðstoð.

Verkefni einkaaðila sem studd eru í tengslum við þróunarsamvinnu og þiggja þannig opinbert fjármagn þurfa að uppfylla ákveðið viðmið, m.a. þurfa þau að fela í sér skilgreint viðbótargildi. Slík verkefni kæmu ekki til framkvæmda á venjulegum forsendum markaðarins og styrkverkefni mega heldur ekki skekkja samkeppni eða leiða til annarra raskana á markaði og þurfa jafnvel að hafa mælanleg þróunaráhrif. Þróunarsamvinna á þannig ekki við í hefðbundnu útflutnings- og markaðsstarfi fyrirtækja, jafnvel þó að markaðir kunni að vera í þróunarlöndum.

Utanríkisráðuneytið hefur útfært tvær meginleiðir um samstarf við atvinnulífið í þágu þróunarsamvinnu og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Annars vegar er um að ræða nýjan samstarfssjóð við atvinnulífið um heimsmarkmiðin sem ætlaður er samstarfsverkefnum fyrirtækja, sérstaklega með það að markmiði að stuðla að atvinnusköpun og sjálfbærum hagvexti í fátækum þróunarríkjum. Styrkfjárhæð getur að hámarki numið 200 þús. evrum yfir þriggja ára tímabil og má ekki fara umfram 50% af heildarkostnaði verkefnis.

Hin leiðin fellur undir samstarf við félagasamtök með aukinni áherslu á þá möguleika í samvinnu við félagasamtök sem tengjast atvinnulífinu og samstarfi félagasamtaka við fyrirtæki um tiltekin verkefni. Þessi verkefni geta beinst að víðtækara sviði tengdum áherslum Íslands í þróunarsamvinnu og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Hinar nýju reglur um samstarfssjóð við atvinnulífið um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna voru kynntar á samráðsgátt Stjórnarráðsins frá 11. til 25. október. Svo var sérstakur kynningarfundur 6. nóvember.

En þetta er nákvæmlega það sem hv. þingmaður var að leggja áherslu á og við verðum að halda okkur og viljum halda okkur nákvæmlega á þeim stað.