Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[18:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið og fyrir að fara yfir þær reglur sem gilda um þátttöku atvinnulífsins þegar kemur að þróunarsamvinnu. Ég er alveg sammála því að það sé mjög mikilvægt að fá fleiri aðila en bara ríkisvaldið að borðinu þegar kemur að þróunarsamvinnu og ég held að atvinnulífið eigi að hafa þar hlutverk og geti skipt máli. Ég ítreka aftur það sem ég sagði að mér finnst mikilvægt að það sé alltaf til staðar í umræðunni að ekki sé sama með hvaða hætti það er gert. Þess vegna þarf alltaf að ítreka það í umræðunni, því að það er auðvitað gott að þetta er alveg skrifað inn. En við vitum líka alveg að hlutir sem hafa verið skrifaðir inn um einhverjar leikreglur geta breyst.

Þess vegna skiptir það máli að ítreka að þróunarsamvinnan eigi að vera á þessum forsendum viðtakandans en ekki á forræði eða út frá hagsmunum ríkra fyrirtækja á Vesturlöndum sem hugsanlega gætu séð sér leik á borði í því að vera í einhvers konar bisness í þróunarríkjunum.

En ég er ánægð með að þetta sé svona vel skrifað inn en tel engu að síður að við þurfum öll alltaf að vera á varðbergi fyrir því að þróunarsamvinnan fari fram með þessum hætti.