Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[18:31]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Nokkur orð í tilefni af framlagningu þessarar stefnu í þróunarsamvinnu. Það leikur enginn vafi á því að þróunaraðstoð er samfélagsleg og siðferðileg skylda okkar og það er mjög almenn samstaða um hana hér á landi. Framlög okkar eru að mínu mati enn of lág en þó er gleðilegt að þau hafa hækkað hægt og bítandi eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra. Þetta er hæg og bítandi aukning í átt til þess sem við getum verið fullsæmd af. Þá er auðvitað rétt að hvetja til þess að þessi 0,7% af vergum þjóðartekjum náist og ég tel að ríkisstjórnin eigi að setja sér markmið og segja sem svo að þau náist innan 5–10 ára. Það væri verðugt verkefni og væri mjög gleðilegt að sjá slíkt markmið sett fram.

Ég vil líka fagna sjóði handa fyrirtækjum og félagasamtökum til að sækja um varðandi þróunarsamvinnu og hefði reyndar viljað sjá sérstaka aukafjárveitingu til þess arna og kannski að svo verði þegar fram í sækir.

Ég vil fagna þessari aðstoð og samvinnu sem hefur verið höfð við þessi 13 lönd í Afríku. Hún snýst um fiskveiðar sem við kunnum vel til verka í, um jarðhitann sem er auðvitað stórt loftslagsmál sem enn fremur kemur fram í framlögum okkar, okkar aðstoð, við græna loftslagssjóðinn, og ég fagna auðvitað jafnréttissjónarhorninu sem við höfum haft svo sterklega uppi, og síðan einnig þá menntun sem við höfum aðstoðað við og þá m.a. í sambandi við uppgræðslu og landbætur víða í Afríku, sem er líka loftslagsmál eins og fram hefur komið.

Ég vil bæta einu við. Ég hef talað fyrir því að færa hluta af þróunarsamvinnu okkar til landa í Suður-Ameríku þegar fjárframlög ríkisins hafa hækkað í framtíðinni. Okkur er margt skylt í þessum heimshluta og við getum komið þar að miklu liði og ekki vanþörf á, því að það eru allmörg lönd, einkanlega í vestanverðri álfunni, sem þurfa á henni að halda.

Mér er líka umhugað um þróunaraðstoð íslenskra fyrirtækja sem hefur verið hér uppi í umræðunni. Það er mikilvægt að í þeim efnum verði hagur samfélaganna virtur til hins ýtrasta og að fyrirtæki sem þarna vinna hafi ekki 100% hagnaðardrifinn áhuga, heldur þvert á móti allt annað í huga. Við vitum, eins og fram hefur komið, að það eru ákveðnar samskiptareglur sem búið er að samþykkja, en við getum líka bætt þar í og haft okkar siðareglur eða samskiptareglur eins strangar eins og mögulegt er.

Að lokum, frú forseti. Ég vil taka undir orð hv. þingmanna, bæði Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur og Steinunnar Þóru Árnadóttur hér á undan mér, sem hafa talað fyrir áherslum Vinstri grænna í málefnum þróunarsamvinnu. Þær áherslur eru nefnilega góðar. Enn fremur ætla ég að þakka þessa stefnumótun yfir höfuð. Þetta er áfangi sem er mjög vel ásættanlegur og segir okkur að við þurfum auðvitað að þróa þróunarsamvinnustefnuna í enn metnaðarfyllri átt. Ég styð við þessa stefnu og allar umbætur í þeim efnum sem koma frá þessari ríkisstjórn.