149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að fordæma þann atburð sem hefur sett af stað þær hamfarir sem riðið hafa yfir þennan vinnustað og þjóðina undanfarna daga. Ég ætla samt að tala um aðrar hamfarir í þessari ræðu eða náttúruvá. Náttúruvá á Íslandi er fjölbreytt, við höfum okkar eldstöðvar, berghrun, flóð á landi og af hafi, storma og ýmislegt sem við þurfum að vera undirbúin fyrir. Það eru margir aðilar sem koma að því að vinna að náttúruvá, bæði að kortleggja hana og bregðast við henni og undirbúa samfélagið til að draga sem mest úr tjóni. Þar má nefna almannavarnir og viðbragðsaðila eins og löggæslu og Landhelgisgæslu, björgunarsveitir og fleira, Veðurstofuna, fræðasamfélagið allt, háskólana okkar, sveitarfélögin og ýmislegt. Margt af þessu og flest er í föstum skorðum og samvinnan milli þeirra aðila sem koma að þessum málum er mjög góð.

En það sem ég held að við þurfum að tryggja hér, eins og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson hefur verið að fjalla um undanfarna daga líka, er að við höfum einhverja yfirsýn. Hana þurfum við að byggja á því hvar sé gert áhættumat. Erum við búin að gera áhættumat alls staðar sem þarf? Þegar áhættumatið er komið, hvernig er þá unnið úr því? Eru gerðar viðbragðsáætlanir? Eru þær æfðar? Er einhver vöktun sett af stað? Eru einhverjar rannsóknir settar í gang, hvaða rannsóknir höfum við og hvaða rannsóknir vantar okkur? Síðast en ekki síst: Förum við í þá fyrirbyggjandi innviði sem þarf til að bregðast við þessu komi þetta upp til að draga úr hættunni á manntjóni eða eignatjóni? Svo þarf líka að fylgja þessari yfirsýn, það þarf að forgangsraða öllum þessum þáttum. Það er það sem við þurfum að huga að hér.