149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að fagna grein hæstv. heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, í Morgunblaðinu í gær, 3. desember, undir yfirskriftinni Bætum kjör sjúkraliða. Þar kemur ráðherra inn á þá viðvarandi áskorun heilbrigðiskerfisins að manna stöður, þá sérstaklega stórra kvennastétta. Ég fagna orðum ráðherra og hvatningu hennar um að kjör, vinnutími og starfsumhverfi sjúkraliða sé skoðað og gripið til aðgerða.

Mikilvægt er að heilbrigðisþjónustan sé vel mönnuð og að þverfaglegt samstarf gangi vel. Hver og einn starfsmaður er mikilvægur í heilbrigðisþjónustunni, ekki síður en í öðrum starfsgreinum. Í greininni kemur fram að í drögum að heilbrigðisstefnu eigi staðan að vera sú árið 2030 að mannaflaþörf heilbrigðiskerfisins hafi verið greind og viðeigandi ráðstafanir gerðar af hálfu ríkisvaldsins til að tryggja mönnun.

Þarna er talað um 2030 en ég vil minna á að mönnunarvandi er nú þegar til staðar og fer vaxandi með hverju árinu sem líður. Við sem þjóð höfum ekki efni á því að eyða mörgum árum í greiningu og hugsa út í viðeigandi ráðstafanir. Við þurfum að bregðast við núna, laða að menntaða sjúkraliða og aðrar heilbrigðisstéttir til að starfa innan heilbrigðiskerfisins og fjölga þeim sem leggja fyrir sig nám í heilbrigðisgreinum.

Einnig gefa orð hæstv. heilbrigðisráðherra óvænt tilefni til bjartsýni gagnvart samningum ríkisins, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjármögnun hjúkrunarheimila, en þar eru sjúkraliðar stór stétt starfsmanna. Rammasamningur rennur út núna um áramót. Samningsaðilar hafa enn ekki náð saman en áhersla ráðherra á mannauðinn er jákvæð skilaboð inn í þá vinnu. Til að veita góða þjónustu með viðunandi mönnun þarfnast hjúkrunarheimilin aukinna fjárveitinga.