149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Þann 3. desember sl., í gær, var alþjóðadagur fatlaðs fólks. Sú umræða sem fór fram á bar einum og varðaði fatlað fólk er skelfileg. Við megum aldrei láta hatrið sigra.

Þau störf sem ég hef verið í undanfarin ár varða Sjálfsbjörg, landssamband hreyfihamlaðra, Sjálfsbjargarheimilið og Öryrkjabandalagið. Að horfa á mikið fatlað fólk og illa fatlað fólk berjast á hverjum einasta degi gegn þeim þröskuldum sem fyrir það er lagt er aðdáunarvert, hversu langt þau komast og eru tilbúin til að berjast. Það að geta hugsað það sem þarna fór fram, setja það í orð og setið undir því á ekki að líðast. Við verðum að átta okkur á því að þarna voru 10% af þingheimi. 10% þingmanna sátu þarna undir þessari orðræðu. Við verðum að átta okkur líka á því að þetta segir allt um þá sem voru þarna og ekki neitt um þá sem var fjallað um. Við verðum að koma í veg fyrir grófa hatursumræðu og smán gagnvart konum og minnihlutahópum. Við verðum að passa upp á það að skömmin sé hjá þeim sem þarna töluðu en aldrei koma henni yfir á aðra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)