149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Alex B. Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Einn hópur sem stjórnvöld hafa ekki tryggt húsnæðisöryggi fyrir eru leigjendur á almennum leigumarkaði. Ástæðan er að leiguverð er hátt, leigutími er stuttur og samningar um leigu eru þannig gerðir að leigjendum er gert að þola sífelldar verðhækkanir.

Herra forseti. Leigusamningar almennra leigufélaga eru bundnir við hækkun neysluvísitölu. Þar að auki er heimild til hækkunar leigu ef rekstrarkostnaður hækkar, t.d. fasteignagjöld. Þá eru aðeins gerðir stuttir leigusamningar til eins árs og eftir það er leiguverð hækkað eftir markaðshækkun. Hvernig á fólk að geta talið leigu traustan kost þegar það situr uppi með tugþúsundkróna hækkun eftir aðeins ársleigu? Nei, hvergi í samanburðarlöndunum sem við teljum okkur tilheyra eru réttindi leigjenda jafn lítil og á Íslandi. Á meðan við höfum reglur um að verðtryggðir innlánsreikningar skuli vera bundnir í 36 mánuði, þ.e. þrjú ár, njóta almennir leigjendur ekki sambærilegra réttinda. Hvers vegna má verðtryggja leigusamninga almenns íbúðarhúsnæðis í ár og bæta við við lok tímabilsins nákvæmlega þeim hækkunum sem neysluvísitölu er ætlað að mæla? Á meðan staðan er óbreytt verður leiga húsnæðis aldrei raunverulegur valkostur.

Herra forseti. Hér þurfa stjórnvöld að grípa inn í og tryggja sanngirni og réttlæti. Það á að banna verðtryggingu á almennri húsaleigu sem er til styttri tíma en þriggja ára. Slík breyting er í samræmi við réttindi til að verðtryggja sparifé. Fjárfestar eiga ekki að hafa meiri réttindi til notkunar verðtryggingar en almenningur með sparifé. Vandamál leigjenda eru ekki að hér þurfi að koma upp verðþaki, vandamálið er hversu mikið má hækka leigu á leigutímabilinu og hvort slíkar hækkanir geti talist eðlilegar eða sanngjarnar.