149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við höfum talið okkur vera í fararbroddi í jafnréttismálum. Það hefur slest á þá sjálfsmynd síðustu daga. Líkt og hér á landi sjáum við miklar breytingar til hins verra á stöðu kvenna samfara breytingu á hinu pólitíska sviði á Norðurlöndum, í Bandaríkjunum og víða í Evrópu. Forseti Bandaríkjanna hefur stært sig af því að konur leyfi honum að káfa á sér og kyssa sig þegar honum henti og segist grípa í píkuna á þeim. Á sama tíma og Trump hættir fjárveitingum til alþjóðlegra hópa sem styðja með einhverjum hætti þungunarrof, eins og Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna, bætir hann í fjárveitingu til samtaka sem vinna gegn réttindum kvenna og hinsegin fólks.

Þróunin á Norðurlöndum veldur líka áhyggjum, svo sem hugmyndir forsætisráðherra og formanns hægri flokksins í Noregi, Ernu Solberg, um að banna með öllu þungunarrof umfram tólftu viku, sama hvað konurnar vilja sjálfar.

Stjórnmál og fótbolti eiga það sameiginlegt að vera mjög karllægir heimar. Á dögunum var norska knattspyrnukonan Ada Hegerberg valin besta knattspyrnukona heims og um leið og hún tók við þessari miklu viðurkenningu bað kynnirinn hana um að hrista á sér rassinn og varð svo steinhissa á neikvæðum viðbrögðum við því virðingarleysi sem hann sýndi.

Þrumuræða stjórnmálakonunnar Söruh Hanson-Yong hefur farið eins og eldur í sinu á internetinu síðustu daga. Hún segist þar með kröftugum hætti hafa fengið algjörlega nóg af framkomu ákveðinna karlmanna á ástralska þinginu sem niðurlægja konur ef þær eru þeim ósammála. Það eru ekki allir karlar sem fara niðurlægjandi orðum um konur eða beita þær ofbeldi. Við þurfum öll að taka á því saman svo að sú ómenning sem birtist hér á síðustu dögum með svo skýrum hætti hafi ekki enn frekari skaða í för með sér.