149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Það hefur verið viss áskorun að vinna með flokki sem ég er jafn ósammála og Miðflokknum, ekki bara þegar kemur að stefnu og málefnum heldur einnig hvað varðar grunnhugmyndafræði og viðhorf. Þau stangast á við grunnskilning minn á heiminum, samfélaginu og fólkinu sem ég deili samfélaginu með. En ég hef ávallt haft í huga að þingmenn Miðflokksins eru fulltrúar sinna kjósenda á þingi, kjósenda sem hafa rétt á að hafa rödd hér inni. Ég hef borið virðingu fyrir því og hef þess vegna lagt áherslu á hvar við getum verið sammála, hvar við getum unnið saman. Sú nálgun hefur þær óumflýjanlegu afleiðingar að maður verður nánari fólkinu sem maður er svo oft ósammála og á einhvern fáránlegan hátt gerir það vinnuna á þingi erfiðari, sérstaklega í stöðu eins og þeirri sem er uppi nú.

Almenningur kallar eftir afsögnum þingmanna sem hafa afhjúpað forneskjuleg og niðrandi viðhorf gagnvart stórum hluta samborgara sína. Traustið er rofið. Ef þingmönnum er annt um lýðræðið og kjósendur sína íhuga þeir stöðu sína af alvöru og spyrja sig hvort það að sitja sem fastast sé skaðlegt fyrir stjórnmálaflokkinn og getu hans til að vinna að málefnum sínum, hvort það sé skaðlegt fyrir stjórnmálin og traust á þinginu, hvort það sé skaðlegt fyrir lýðræðið. Ef svo er er það merki um stjórnlaust egó og eiginhagsmunagæslu að sitja áfram á þingi eftir að viðkomandi þingmaður hefur misst getuna til að vinna af heilindum að málefnum og stefnum síns flokks.

Forseti. Að lokum vil ég segja að síðan ég hóf störf á þingi hef ég smám saman öðlast mynd af þeirri neikvæðu menningu sem ríkir á þessum vinnustað. Menningin er lituð af átökum, undirferli, óheiðarleika, brögðum og baktjaldamakki. Hættan sem stafar af þessari menningu er sú að einstaklingar sem sjá fram á að ná litlum sem engum árangri með heiðarlegri nálgun fari að láta tilganginn helga meðalið og missa smám saman sjónar á sínum siðferðislegu mörkum. Þetta er lúmsk þróun sem er erfitt að koma í veg fyrir án sífelldrar sjálfsskoðunar. Þessi menning er hluti af vandamálinu og mér finnst mikilvægt að við spyrjum okkur (Forseti hringir.) hvort það sé orðið tímabært að uppræta þessa menningu og fara að stunda annars konar pólitík. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)