149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú er daginn tekið að stytta og tímann fram að jólum einnig og mikilvægt fyrir okkur öll að þingstörfin gangi vel fyrir sig þessar síðustu vikur. Vinnan hefur gengið ágætlega í haust. Umræðu um fjárlögin er að ljúka og hér stefnir flest til betri vegar eftir pólitískar sviptingar undanfarin ár. Alþingi, fyrst þjóðþinga, hélt svokallaða rakarastofu þar sem þingmenn ræddu hvernig bæta mætti vinnuumhverfi hér á Alþingi. Hér í haust var svo gagnleg umræða um eflingu trausts á stjórnmálum þar sem rætt var um ástæður þess að það væri svo lítið sem raun ber vitni. Ekki er ólíklegt að atburðir síðustu daga hafi eitthvað með traust og trúverðugleika að gera en þó að Alþingi sé fyrst og fremst löggjafarsamkunda er Alþingi vinnustaður okkar þingmanna. Hér eyðum við stærstum hluta vikunnar saman þvert á flokka. Við borðum saman, við störfum saman, við tölum saman. Þess vegna er svo mikilvægt að okkur líði vel á vinnustaðnum og að við upplifum öryggi. Því miður er því ekki svo farið á Alþingi þessa dagana.

Atburðir undanfarna daga kalla fram margs konar tilfinningar og flestum sem ég hef rætt við finnst vinnustaðurinn okkar hafa verið svertur. Lágkúran gagnvart okkur þingmönnum hélt svo áfram í gærkvöldi í sjónvarpsviðtölum þegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hélt því fram að sú orðræða sem viðhöfð var af hans hálfu og nokkurra annarra þingmanna um samstarfsfólk sitt og aðra sé hefðbundin, sé algeng og að þingið væri jafnvel ekki starfhæft ef allir væru dregnir fram sem svo hafa talað.

Virðulegi forseti. Það er óásættanlegt að sitja undir slíkum dylgjum. Það væri réttara nú, þegar formlegur ferill er hafinn á þessu máli, að gerendurnir hefðu manndóm til að láta eiga sig að reyna að drepa málinu á dreif með því að segja að hér inni beri allir ábyrgð, enda væri það aldrei nein afsökun. Við hljótum að gera meiri kröfur til okkar sem stjórnmálamanna og sem fólks en að benda út í loftið og segja að aðrir séu verri.

Ykkar sexmenninganna er skömmin, þið eigið að axla ábyrgð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)