svæðisbundin flutningsjöfnun.
Virðulegi forseti. Við erum hérna með til 2. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011, með síðari breytingum. Atvinnuveganefnd leggur fram nefndarálit með breytingartillögu og flyt ég það hér.
Atvinnuveganefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hrund Pétursdóttur frá Byggðastofnun, Hermann Sæmundsson og Ólaf Kr. Hjörleifsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Aðalstein Óskarsson frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Hlyn Gauta Sigurðsson fyrir hönd Landssamtaka skógareigenda.
Með frumvarpinu er lagt til að gildistími laga um svæðisbundna flutningsjöfnun framlengist og gildi út árið 2025 en gildandi lög féllu að öðrum kosti úr gildi í árslok 2020. Enn fremur er lagt til að gildissvið laganna verði víkkað út þannig að þau nái einnig yfir framleiðslu garðyrkjubænda sem rækta ávexti, blóm og grænmeti og fullvinna framleiðslu sína í söluhæfar umbúðir, enda falli framleiðslan þeirra undir tiltekinn flokk í ÍSAT2008 staðalsins.
Þá er lagt fram að lágmarkslengd á flutningi styrkhæfrar framleiðslu styttist úr 245 í 150 km. Þarna er um mörg svæði eða byggðarlög að ræða. Með þessu eru allir Vestfirðir t.d. inni, bæði Hólmavík og Reykhólar, og fleiri. Það munar svolítið um það. Jafnframt er í frumvarpinu kveðið skýrt á um að ef styrkhæfar umsóknir fara fram úr fjárveitingu geti Byggðastofnun lækkað hlutfall styrkja, en ef styrkhæfar umsóknir reynast lægri en fjárveitingin megi hækka hlutfallið. Undanfarið hefur það verið þannig að sú fjárhæð sem hefur verið til umráða hefur ekki alveg gengið út, en nú breytist það og hægt verður að sveigja þetta þannig að öll fjárhæðin nýtist. Þetta er lagt til til þess að tryggja að fjárframlög til styrkja séu fullnýtt.
Við umfjöllun um málið var bent á að skógrækt væri vaxandi grein hér á landi sem ákjósanlegast væri að nyti flutningsjöfnunar samkvæmt lögunum. Afurðir skógræktar sem slíkar falla ekki undir gildissvið laganna, en afurðir sem hafa verið unnar úr þeim geta fallið þar undir, svo sem afurðir þær sem unnar eru úr tré, eins og kurl og brenni og fleira, en hrávaran fellur ekki undir það.
Nefndin bendir á að með frumvarpinu sé verið að útvíkka gildissvið laganna og er afmarkað fjármagn til ráðstöfunar ár hvert. Nefndin telur rétt að kanna seinna meir hvort unnt sé að koma frekar til móts við skógrækt og þarf þá jafnframt að athuga regluverk Evrópusambandsins sem setur ákveðnar takmarkanir í þessum efnum.
Nefndin leggur til orðalagsbreytingu við c-lið 3. gr. frumvarpsins til að skýrt sé að vísað sé til kostnaðar Byggðastofnunar. Einnig er lagt til að efnisgreinin bætist í fyrirsögn frumvarpsins.
Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:
1. Í stað orðanna ,,og stofnunarinnar“ og ,,Byggðastofnun“ í 1. og 2. málsl. c-liðar 3. gr. komi: Byggðastofnunar; og: stofnunin.
2. Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011, með síðari breytingum (gildissvið og framlenging gildistíma).
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var fjarverandi afgreiðslu málsins.
Njáll Trausti Friðbertsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið í samræmi við heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu.
Undir þetta rita Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður, sú sem hér stendur, Halla Signý Kristjánsdóttir, Inga Sæland, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Sigurður Páll Jónsson, Ásmundur Friðriksson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Njáll Trausti Friðbertsson.