149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

158. mál
[14:46]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. framsögumanni, Höllu Signýju Kristjánsdóttur, hv. þingmanni fyrir framsöguna. Það er hér eitt atriði sem mig langar til að velta upp, það er varðandi styrkupphæðina, þ.e. heildarfjármögnun þessarar flutningsjöfnunar. Fram kemur í greinargerðinni í 2. mgr. í 2. kafla að fjárveitingar til þessara flutningsjöfnununarstyrkja hafi aldrei verið fullnýttar.

Í fyrsta lagi: Getur hv. þingmaður upplýst um hversu mikið hefur verið nýtt, eða öllu heldur hversu mikið hefur ekki verið nýtt?

Í öðru lagi: Bendir það ekki til þess að þessir flutningsjöfnunarstyrkir skipti litlu máli ef ekki er sóst eftir þeim?

Þá mundi ég líka aðeins vilja heyra í hv. þingmanni um mat á áhrifum. Í 6. tölulið greinargerðarinnar er fjallað um þau. Mér sýnist í sjálfu sér að ekki sé gerð nein tilraun til að gera mat á því. Hversu mikið munu hinir nýju flokkar, sem verið er að setja inn í flutningsjöfnunarkerfið, taka til sín af því heildarstyrkupphæðin er fasti?

Hafa menn gert sér grein fyrir því hvort þetta muni rúmast innan núverandi fjárveitinga að því leyti að það muni ekki skerða réttindi annarra, sem þeir hafa núna, eða (Forseti hringir.) hvernig er þetta hugsað? Hvert er hið raunverulega mat? Það kemur eiginlega ekki fram.