Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

158. mál
[14:52]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þörfin sé alltaf til staðar og þó að við séum að minnka radíusinn og þeim framleiðsluaðilum fjölgi sem geta sótt í þetta, þá erum við svolítið bundin af fjármagninu. Með því að setja þetta þannig upp að við getum nýtt fjármagnið ef það hefur ekki nýst að fullnusta held ég að munum ekki hafa áhyggjur af því að potturinn nýtist ekki hér eftir, verði þetta frumvarp að lögum. En sjálfsagt fá einhverjir minni styrk sem hafa nýtt hann en eru þó lengra í burtu, segjum bara eins og á Langanesi eða Vestfjörðum.

Við fengum umsögn frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga. Þau voru nokkuð ánægð með þessa breytingu og töldu að fleiri myndu geta nýtt þetta. Þau bentu á að við ættum frekar að horfa til þess að reyna að auka þennan styrk eða stækka pottinn til þess að fleiri geti sótt í hann. Við erum náttúrlega bundin af gengissveiflu af því að upphæðin er í evrum. Þá er það spurning hvort það sé ekki áhyggjuefni.

En matið á áhrifum þessa hef ég ekki tiltækt. En vissulega þyrftum við að fara yfir það þegar þetta kemur til framkvæmdar og sjá til hvernig þetta kemur út. Þá þurfum við kannski að skoða það betur.