149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

158. mál
[14:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég er ekki andsnúin því að afgreiða þetta mál enda er um að ræða ákveðið umhverfi sem verið hefur og hefur ekki verið alveg í samræmi við það sem fjölbreyttari framleiðsla, ekki síst á afskekktari svæðum, býður upp á. Verið er að framlengja lögin til 2025, sem myndu að öðrum kosti falla úr gildi árið 2020.

Það er gert eftir að hafa rýnt vel í EES-samninginn. Menn héldu á sínum tíma að það væri ekki hægt, en þetta er nú dæmi um sveigjanleika innan EES-samningsins. Verið er að reyna að halda uppi ákveðinni reglu varðandi samkeppnislög um leið og menn átta sig á að ákveðin svæði eru viðkvæmari en önnur og eiga í erfiðleikum með að standa undir öflugri samkeppni á jöfnum grunni. Það er sú hugsun sem nær inn í lögin sem sett voru á sínum tíma, 2011 að mig minnir. Hæstv. forseti man það kannski betur en en ég. Verið er að koma til móts við afskekktar byggðir. Ég vil draga það fram.

Það skiptir okkur máli að segja að við ætlum að halda landinu í byggð, en við ætlum ekki að ákveða hvaða atvinnugreinar eigi að lifa af. Við ætlum að reyna að veita þeim atvinnugreinum sem reynt er, oft af veikum mætti, að byggja upp á ákveðnum svæðum, svigrúm til þess. Þess vegna held ég að það sé jákvætt skref að hafa víkkað út gildissvið laganna varðandi framleiðsluna, m.a. framleiðslu garðyrkjubænda, sem rækta t.d. ávexti, blóm og fleira.

En auðvitað vekja allar undanþágur, sérreglur, alltaf upp spurningar. Af hverju eigum við að vera að þessu? Við verðum að geta sagt af hverju við erum að þessu. Þess vegna var það kærkomið tækifæri að fara í gegnum það í nefndinni.

Upp hafa komið ákveðnar spurningar. Mér fannst þeim að mörgu leyti vera svarað varðandi þær efasemdir sem ég hafði uppi í þessu efni. Það er alveg skýrt að ekki er verið að fara yfir þakið sem við myndum annars fara yfir, sem er um minnir mig 200.000 evrur, af því að þá værum við að tala um ríkisstyrk, sem bryti í bága við EES-samninginn. Það skiptir okkur miklu máli þegar við breytum að það sé í samræmi við við umgjörð og ramma sem EES-samningurinn, sá mikilvægi samningur — sem ég vona að haldi áfram og verði gildur og ríkisstjórnin fari ekki að fara einhverja fjallabaksleið til að grafa undan, eða ekki síst Sjálfstæðisflokkurinn. En það er önnur saga og væri hægt að lengja þá umræðu og nýta þær 17 mínútur sem ég á eftir til að tala um mikilvægi EES-samningsins.

En þetta er hins vegar 2. umr. um frumvarp til laga um breytingar á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun, sem er mikilvægt að fara í gegnum og spyrja ákveðinna spurninga. Mér fannst þeim efasemdum svarað sem ég hafði uppi. Þær eru ekki ósvipaðar þeim sem Jón Steindór Valdimarsson, hv. 13. þm. Suðvest. og Viðreisnar, hafði hér uppi áðan og skiptir máli að það hafi verið tekið tillit til til þess.

En síðan er annað skemmtilegt í þessu. Á sínum tíma kom ekki til greina að taka inn grænmetisbændur, en það er verið að gera núna. Skógræktarbændur hafa réttilega bent á að skógræktin sé vaxandi grein og ég held að hún muni vaxa enn frekar á næstu árum, líka þegar við eflum okkur í umhverfismálum, þ.e. loftslagsáætlun okkar, sem við þurfum og það er skilyrði sem við þurfum að uppfylla. Það getur vel verið að menn verði enn þá umsvifameiri, ekki síst á afskekktari svæðum, sem við erum að reyna að ná til í þessu frumvarpi.

Ég styð hugsanagang og meginefni þessa frumvarps og þakka fyrir þá yfirferð sem var í nefndinni.