Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr.

178. mál
[15:09]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Jú, ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni. Hér er í raun og veru ekki verið að breyta neinu. Ekki bara er hér enn opnun heldur er opnunin beinlínis gerð lögleg. Opnunin hefur verið í raun á svig við lög hingað til vegna þessa ákvæðis um að það sé skilyrði fyrir íslenskukunnáttu. Þess vegna hafa ráðningar Matvælastofnunar á dýralæknum í sláturtíð í raun verið á svig við lög eins og kemur fram í áliti umboðsmanns Alþingis.

Ég er hjartanlega sammála því, og þess vegna kom ég nokkuð inn á það í framsögu minni og við tökum það líka skýrt fram í nefndarálitinu, að það þarf að fara í þessa endurskoðun og byggja einmitt á umræddri skýrslu. Ég er líka sammála hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur um að stór hluti af því sem þarf að skoða eru starfskjörin. Það á ekki bara við um dýralækna sem fæðast á Íslandi eða hafa íslensku að móðurmáli eða hafa lært hana heldur bara alla dýralækna sem hingað koma til starfa.

Ég nefndi áðan í framsögu minni að helmingur dýralækna snýr ekki heim úr námi. Ég veit ekkert hvert hlutfallið á að vera. Við lifum í alþjóðlegum heimi og það er bara eðlilegt ef fólk lærir einhvers staðar og ákveður að ílengjast. En þetta er hátt hlutfall og mér finnst eðlilegt að setjast yfir það og velta því fyrir okkur af hverju þetta er svona. Mér finnst eðlilegt að setjast yfir það af hverju það hafi breyst, af hverju það gengur erfiðlegar að uppfylla þörf fyrir dýralækna en var áður en fyrirkomulagi var breytt með umdæmissvæði og fleira slíkt, að mér skilst.

Þetta finnst mér við þurfa að skoða allt, nema við þurfum ekki alveg að byrja á byrjuninni. Það er búið að skoða þetta allt í umræddri skýrslu og þar er akkúrat tekið á þessum þáttum.

Eins og ég kom inn á í upphafi minnar framsögu fræddist nefndin einmitt um það að að miklu leyti er þetta starfskjaramál. Þar styð ég dýralækna í því að við skoðum (Forseti hringir.) þeirra starfskjör til fulls, hvaða mál sem þeir tala.