149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr.

178. mál
[15:11]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Það verður að viðurkennast alveg í einlægni að það er svolítið gott að koma upp í andsvar eftir hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé og vera bara nokkuð sammála honum einu sinni í málefnum. Ég er fegin að heyra að hann er sammála mér í því að það þurfi sérstaklega að huga að öllum þeim dýralæknum sem kjósa að starfa hér á Íslandi, hvort sem þeir eru íslenskir eða erlendir, og nálgunin sé þannig að það beri að sinna þeirra starfsumhverfi betur og taka það föstum tökum, hvort sem það er með tilvísun í skýrsluna eða ekki.

Ég vil hnykkja á því sem ég tel líka að menntamálaráðherra verði að skoða í samvinnu við þingmenn og hefur verið áhugamál mitt í meira en tíu ár, og lítið miðað, en það er að koma upp dýralæknanámi hér, fyrra stigi, BS-gráðu í samvinnu við Hvanneyri, hvort sem við sjáum fram á sameiningu Hvanneyrar og Háskóla Íslands. En alla vega sé ég fram á að það sé hægt að gera þetta í samvinnu Hvanneyrar, Háskóla Íslands, Keldna og koma upp öflugu BS-námi hér heima. Ég veit að hópur dýralækna er með það í skoðun. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt í ljósi þess að ég sé ekki bara fram á það að núverandi matvælaframleiðsla þarfnist þess heldur ekki síður vegna framtíðarsóknar. Ég er sannfærð um að við eigum eftir að fara í enn frekari sókn í matvælaframleiðslu, hvort sem það er að að vissu leyti í þróun sauðfjárafurða en ekki síður innan mjólkurgeirans, þannig að ég komi því að.

Ég tek sérstaklega undir með hv. þingmanni varðandi starfskjörin. Það er ekki úr lausu lofti gripið að ákveðnir hópar, til að mynda BHM, eru að fara fram á það að menntun verði metin til launa. Þegar maður sér hvernig umhverfið er að þróast er það skiljanleg krafa.