149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr.

178. mál
[15:16]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. framsögumanni þessa nefndarálits prýðisgóða framsögu og skýrt fram sett mál. Hér erum við að ræða mál sem er allrar athygli vert og lýtur að dýralæknaþjónustu, ákveðnum hluta hennar, um land allt. Eins og við þekkjum flest er hér fjöldinn allur af mjög góðum dýralæknum, frá öllum heimshornum má segja, fólki sem sannarlega hefur bætt samfélag okkar og komið með mikla og góða viðbót við okkar menningu.

Meginefni þessa frumvarps er að lögð er til breyting á 6. gr. laganna þar sem fallið er frá ófrávíkjanlegri kröfu um íslenskukunnáttu dýralækna í opinberri þjónustu. Þess í stað þykir rétt að heimilt sé að gera kröfu ef slík kunnáttu er talin nauðsynleg í starfi. Þarna er verið að takast á við þetta mál og segja má að í sjálfu sér sé ekkert að breytast. Það eru ýmsir verkferlar og ýmislegt sem hefur viðgengist. Það hefur verið erfitt að ráða dýralækna. Sú ófrávíkjanlega krafa að menn séu talandi á íslenska tungu er ekki raunhæf og við höfum ekki getað staðið við hana. Það er mikið álag á dýralæknum og á ákveðnum tímum eins og í sláturtíð, eins og hefur komið fram hér, hafa menn þurft að bjarga sér og ráða hingað inn fólk erlendis frá.

Okkur er svolítið tamt að telja að þegar menn tala útlensku þá sé það yfirleitt danska og enska en sú er nú ekki eingöngu raunin. Margir bændur sem hafa þurft að eiga mikil samskipti við dýralækna hafa klórað sér í hausnum þegar þeir hafa fengið heilbrigðisvottorð og tilvísanir á spænsku eða úkraínsku eða einhverjum öðrum tungumálum sem eru flestum okkar mjög framandi. Þá skilar þessi vinna sér kannski ekki. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða vel.

En ég held að þetta séu bara ágæt skref sem við stígum hérna. Það er verið að opna á heimildir. En við þurfum að taka á þessu áfram þannig að skilningur og gagn af þessari þjónustu sé örugglega til staðar. Það sem menn hafa fram að færa og er skepnunum til góðs þarf mannskepnan að skilja líka.

Það er ágætisnefndarálit með þessu og ég ætla aðeins að grípa niður í það. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Við umfjöllun um málið í nefndinni kom fram að nauðsynlegt væri að dýralæknar í opinberum störfum hefðu vald á íslenskri tungu. Einnig var lýst áhyggjum af starfsumhverfi dýralækna hér á landi, að mikið álag væri í störfum þeirra og að ekki nema um helmingur nýútskrifaðra dýralækna erlendis sneri til Íslands til starfa. Einnig var við meðferð málsins vísað til þess að hafin væri heildarendurskoðun laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og að brýnt væri að þeirri vinnu yrði haldið áfram.“

Þetta hefur komið fram bæði í ræðu og andsvörum og í 1. umr. um þetta mál, það er full ástæða til að hafa áhyggjur af starfsumhverfi dýralækna. Þar þarf einhver vinna að eiga sér stað. En við hljótum náttúrlega að bjóða alla velkomna sem hingað vilja koma og starfa í okkar samfélagi og gerast þátttakendur í því og vinna með okkur að framförum. Í þessum geira sem og öllum öðrum þurfum við að vanda okkur og búa til skýra ramma. En þeir þurfa að vera raunsæir. Við þurfum að geta farið eftir þeim.

Ég tek undir að við þurfum að rýna betur í þessi lög og umhverfi dýralækna. Það held ég að sé mjög gagnlegt fyrir okkur. Ég geri mér ekki grein fyrir því hversu hátt hlutfall nýútskrifaðra dýralækna er eðlilegt að skili sér hingað heim. Ég tek undir orð hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppé um að við búum náttúrlega í þannig heimi að fólk setur sig bara niður þar sem því hentar. Það er engin regla til um það.

Hugmyndir um að koma upp dýralæknanámi hér finnast mér heillandi. Ef við náum utan um að það gangi væri það örugglega jákvætt skref og ég reikna með því að þá fengjum við jafnvel líka nemendur erlendis frá sem myndu sjá tækifæri til að setjast hér að. Þá myndi fólk líka hafa meiri möguleika á að tileinka sér íslenskuna og nýta hana í sínum störfum.

Ég vona svo sannarlega að við þurfum á fleiri dýralæknum að halda í framtíðinni. Ég vil sjá matvælalandið Ísland vaxa og dafna, að við nýtum gjafir jarðarinnar, nýtum auðlindir okkar og byggjum á aukinni matvælaframleiðslu. Hér búum við við heilbrigt og gott umhverfi þar sem við erum í öllum færum til að framleiða meira. En þá megum við hvergi gefa eftir í eftirliti og því sem að því lýtur og öryggi neytenda og aðbúnaði skepna. Þar koma dýralæknar sterkt inn. En dýralæknarnir þurfa líka að geta talað við dýrahirðana, bændurna, og fleiri og skilað af sér skýrslu og umsögnunum sem allir skilja klárlega.

Ég vil þakka nefndinni fyrir og líst ágætlega á þetta skref sem við erum að stíga hér.