Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

útflutningur hrossa.

179. mál
[15:28]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og nefndarálitið. Ég verð að viðurkenna að ég er sammála honum. Þegar þessi mál komu fyrst hingað inn þá leit ég á þetta sem lítil mál. Ég varð samt svolítið forvitin en hafði ekki tök á að spyrja þá, þegar verið var að mæla fyrir málinu. Og kannski kann að vera ósanngjarnt að ég sé að spyrja framsögumann nefndarinnar og allt í lagi ef hann getur ekki svarað því, en ég velti fyrir mér nauðsyn þess að við séum yfir höfuð með eitthvað sem heitir stofnverndarsjóður.

Ég ætla ekki að hafa miklar skoðanir á því hvort rukka eigi 1.500 kr. eða 3.500 kr. þegar verið er að flytja út hross sem þá fer í þennan sjóð. Ég velti því fyrir mér hvort sjóðurinn sem slíkur hafi eitthvað komið til umræðu í nefndinni og nauðsyn hans.