Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

útflutningur hrossa.

179. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Sigurður Páll Jónsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er margt sem maður hefur ekki hugmynd um þegar maður byrjar að starfa á Alþingi. Ég er búinn að starfa töluvert skemur en hv. þingmaður. Stofnfjársjóður þessi er hugsaður sem sjóður til að efla ræktun íslenska hestsins og auglýsa hann þá til útflutnings og ræktunar. Mér finnst það vera hið besta mál og ekki ástæða til að draga í land með það. Það kom fram í umfjöllun í nefndinni að menn eru ekki alveg á eitt sáttir um það hvernig úthlutunin fer fram. Það er meira innanbúðarmál hrossaræktenda og hvet ég þá til dáða, hvet þá til að taka saman höndum og vera samtaka í því hvernig þeir deila út þessum sjóði og hvernig að því er staðið. Það er miklu vænlegra til árangurs en að ágreiningur sé um það. Það gengur oft á ýmsu í hrossabúskap eins og öðrum búskap en það er vænlegast til árangurs að menn haldist í hendur. Eins og ég segi er þetta í mínum huga hið besta mál en það þarf að endurskoða tilhögun þessa alls í framhaldinu eins og kemur fram í nefndarálitinu.