149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

útflutningur hrossa.

179. mál
[15:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Mér verður litið til hægri, og ætla að segja, horfandi beint í gættina, að ég er almennt á móti skattahækkunum og það var það sem kom fram á fundi atvinnuveganefndar að þetta er skattahækkun. Það er að sjálfsögðu hægt að klára málið og fara síðan með það í endurskoðun, þannig að það sé sagt, hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé.

Auðvitað er það hægt og segja bara: Klárum þetta mál og förum áfram með það. Ég tel einmitt stöðuna vera núna þannig að í stað þess að hækka gjaldið, þá ekki síst með tilliti til laga um opinber fjármál, sem mér finnst þetta frumvarp stangast svolítið á við, sé ástæða til að staldra við þó að meiri hluti löggjafans geti auðvitað ákveðið að keyra málið í gegn. Þetta er svona eitt af þessum litlu málum sem eru samt ákveðin prinsippmál. Þetta er öðruvísi en málið sem við ræddum áðan um flutningsgjaldið og flutningsjöfnun því að þar er ekki um hækkun að ræða heldur erum við að breikka það út fyrir þá sem geta sótt um í tiltekinn sjóð meðan hér er einfaldlega verið að leggja álögur á hrossabændur.

Vel að merkja, þeir sem flytja út eru almennir hrossaræktendur. Það eru ekki síst þeir sem eru að flytja út sem við getum þakkað fyrir að viðhalda glæsilegum íslenskum hrossastofni með öllum þeirra litum, líka nýjum litaafbrigðum eins og dæmin sanna núna á síðustu þremur árum. Nú erum við a.m.k. að fá einn nýjan lit inn í hrossaræktunina. Þá held ég engu að síður að í staðinn fyrir að fara þá leið að hækka gjaldið — mér þætti, herra forseti, ótrúlega fínt ef hægt væri að fá að svara án þess að það væri talað svona …

(Forseti (JÞÓ): Forseti óskar eftir að menn hafi hljóð meðan ræðumenn tala. Ég gef þingmanninum örlítið lengri tíma sökum þessa.)

Þakka þér fyrir, herra forseti. Ég fer þá bara betur í það á eftir en, eins og ég segi, það er að sjálfsögðu hægt að klára þetta. En þetta er að mínu mati töluverð hækkun, hlutfallsleg hækkun, úr 1.500 kr. í 3.500 kr. og þetta er tilefni til að við förum aðeins rólega í þetta og skoðum hvort hægt sé að styrkja hrossaræktendur og rannsóknir með öðrum hætti en þessum.