149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

ráðherraábyrgð og landsdómur.

[16:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í 14. gr. stjórnarskrár Íslands segir:

„Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.“

Ráðherraábyrgð er nánar skilgreind í lögum nr. 4/1963. Í þeim lögum kemur fram að ráðherra getur verið gerður ábyrgur fyrir því t.d. að misbeita stórlega valdi sínu eða ef hann leitar ekki samþykkis Alþingis þegar það er skylt samkvæmt stjórnarskrá.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um ráðherraábyrgð kemur fram, með leyfi forseta:

„Það er skiljanlegt, að nú á tímum, eftir að þingræðisreglan er viðurkennd, vakni sú spurning, hvort þörf sé á sérstökum ráðherraábyrgðarlögum. Með öðrum orðum, hvort þinglega ábyrgðin sé ekki nægileg vörn gegn misbeitingu valds af hálfu ráðherra, og hvort ekki séu nægilegar refsiheimildir, að því er ráðherra varðar, í ákvæðum almennra hegningarlaga. Þinglega ábyrgðin veitir ráðherra vissulega mikið aðhald, og samkvæmt þingræðisreglunni getur Alþingi eða meiri hluti þess hvenær sem er, losað sig við misvitran ráðherra. Lagalegu ábyrgðinni má þó aldrei sleppa. Að sjálfsögðu er ekki ástæða til, að aðrar reglur gildi um embættisbrot ráðherra heldur en um samkynja brot annarra embættis- og sýslunarmanna […] En staða ráðherra er svo sérstæð, að þeir geta orðið sekir um það misferli í starfi, sem vart eða ekki er hugsanlegt hjá öðrum opinberum starfsmönnum. Hinar sérstöku embættisskyldur ráðherra hafa naumast verið hafðar í huga við samningu almennra hegningarlaga. Sýnist því þrátt fyrir allt vera þörf á sérstökum ráðherraábyrgðarlögum, þar sem hegning er lögð við þeim brotum, sem óttast má af ráðherra sérstaklega og ákvæði almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi ná ekki til.“

Ekki er annað að sjá en að þau rök gildi enn.

Forseti. Við höfum orðið vitni að því að þinglega ábyrgðin virkar ekkert rosalega vel. Stólarnir eru mikilvægari en að ráðherra beri ábyrgð á verkum sínum. Spurningin sem vaknar í kjölfarið er því risastór: Ef ráðherrar þurfa ekki einu sinni að bera ábyrgð gagnvart þinginu, hvernig geta þeir þá lent í því að bera ábyrgð gagnvart landsdómi? Ég tel að allir geti giskað á svarið. Það gerist bara á pólitískum forsendum að loknum kosningum þar sem nýr meiri hluti tekur við stjórn.

Hér ber að árétta að ef nýr meiri hluti myndi ákveða að sækja ráðherra fyrri ríkisstjórnar til saka þá væru það ekki nauðsynlega pólitískar ofsóknir. Ástæður slíks málflutnings geta verið vel rökstuddar og málefnalegar. Staðreyndin er bara sú að við virðumst ekki geta látið ráðherra bera þinglega ábyrgð og ásýnd málaferla byggð á lögum um ráðherraábyrgð verður alltaf á pólitískum forsendum, sem kastar rýrð á málsmeðferð og niðurstöðu.

Í eina skiptið sem landsdómur hefur verið kallaður saman má segja ýmislegt um málsmeðferðina. Sumir hallmæla málsmeðferðinni á meðan aðrir hrósa henni. Hér ber að hafa í huga að báðir geta haft rétt fyrir sér. Niðurstaða dómsins er hins vegar óvefengjanleg. Það hefur ítrekað verið reynt að finna hnökra á niðurstöðu landsdóms en dómurinn hefur alltaf staðið af sér slíkar atlögur. Á þeim forsendum er auðvelt að segja að landsdómi sé treystandi, þótt erfitt sé að alhæfa út frá einu dæmi. En það er augljóslega aðkoma Alþingis sem er vandamálið og tengist skorti á þinglegri ábyrgð. Því er spurningin: Er raunhæft að landsdómur sé úrræði sem hægt er að kalla til miðað við ásakanir um pólitíska misnotkun gagnvart því hvernig kallað er og hefur verið til landsdóms?

Þann 6. mars 2017 sagði forseti Íslands í viðtali um landsdóm, með leyfi forseta:

„Látum þetta okkur að kenningu verða enda hygg ég að enginn vilji hafa ákvæði um landsdóm í stjórnarskránni. Finnið þann sem vill að málum verði hagað með sama hætti í framtíðinni. Ég efast um að ykkur takist það.“

Í grein Vísis frá 5. febrúar 2018 er haft eftir Björgu Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við lagadeild Háskóla Íslands, með leyfi forseta:

„Á meðan ekkert annað kemur í staðinn fyrir landsdómsfyrirkomulagið sem stjórnmálamenn hafa sagt úrelt er í rauninni verið að lýsa því yfir að ráðherrar séu friðhelgir gagnvart ákærum fyrir embættisbrot.“

Staðan er alvarleg, grafalvarleg. Það má færa rök fyrir því að klúður á skipan dómara í Landsrétt, að fela skýrslu fyrir kosningar og skipa stöður í skiptum fyrir greiða varði lög um ráðherraábyrgð.

Það er hins vegar engin lausn í augsýn á stjórnarskrárbreytingum og því sitja hér í friðhelgi ráðherrar í skugga þess sem er kallað úrelt stjórnarskrárákvæði, heppilegt fyrir þá, sem leiðir mig að annarri spurningu. Ef fyrir liggur grunur um brot á lögum um ráðherraábyrgð, til hvaða úrræða er hægt að grípa til að fá úr því skorið?

Forseti. Því hefur verið haldið fram að fyrningarákvæði laga um ráðherraábyrgð gerir það að verkum að lítill tími er fyrir nýtt þing að afloknum kosningum, hvort ákveða skuli kalla saman landsdóm. En í dag er öðruvísi háttað til.

Í 14. gr. laga um ráðherraábyrgð segir, með leyfi forseta:

„Málshöfðun eftir lögum þessum getur eigi átt sér stað, ef 3 ár líða frá því, er brot var framið án þess að Alþingi hafi samþykkt ályktun um málshöfðunina. Sök fyrnist þó aldrei fyrr en 6 mánuðir eru liðnir frá því, að næstu reglulegu alþingiskosningar, eftir að brot var framið, fóru fram.“

Vert er að benda á (Forseti hringir.) að á Íslandi hafi ekki farið fram reglulegar alþingiskosningar frá árinu 2013. Það gerir að verkum að embættisfærslur Gunnars Braga Sveinssonar sem utanríkisráðherra árið 2014, sem hafa verið til umfjöllunar undanfarna viku, eru ekki enn fyrndar. Því er spurning hvort ekki þurfi að hafa halda áfram að tala um landsdóm á öðrum (Forseti hringir.) vettvangi þegar þessari sérstöku umræðu er lokið. Verðum við ekki þrátt fyrir allt (Forseti hringir.) að nota þau lög sem til okkur standa?