149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

ráðherraábyrgð og landsdómur.

[16:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem er mjög tímabær og mjög nauðsynleg. Alla vega fyrir leikmann lítur það þannig út að ráðherrar séu út af fyrir sig stikkfrí þegar kemur að stjórnarathöfnum. Við höfum dæmi um að ráðherrar hafi brotið lög, fengið á sig hæstaréttardóma og setið keikir eftir. Ég man í fljótu bragði t.d. eftir fyrrverandi umhverfisráðherra sem braut skipulagslög og ég man eftir fyrrverandi forsætisráðherra sem braut jafnréttislög og báðar sátu þar í embætti eftir sem áður og sitja jafnvel enn. Það er því mjög tregt að hugsa til þess hvað til þurfi til að ábyrgð ráðherra á gjörðum sínum og undirmanna sinna verði meira en orðin tóm.

Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni rétt áðan, að reynsla manna af því eina tilviki þegar landsdómur var virkjaður veldur því að menn sitja alla vega eftir með óbragð í munni, ég held að óhætt sé að fullyrða það. Og það væri rétt að rifja upp með ákveðnu millibili hvernig sú niðurstaða var fengin fram hér í þingsal að vísa máli eins ráðherra, fyrrum forsætisráðherra, til landsdóms á sínum tíma vegna þess að þar var atburðarásin hönnuð í þá átt að fyrrverandi forsætisráðherra yrði einn sendur fyrir landsdóm.

Síðan er rétt að benda á að Miðflokkurinn hefur lagt fram þingsályktunartillögu um þetta mál þar sem fram kemur að jafnvel sé ástæða fyrir Alþingi til að biðjast afsökunar eða fyrirgefningar á þeim málatilbúnaði öllum vegna þess að dómsorð landsdóms í einu smáatriði af sex eða sjö ákæruatriðum er hverjum manni skiljanlegt sem les t.d. skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það var ekki hægt á þessum tíma að halda ríkisstjórnarfundi (Forseti hringir.) af því að ríkisstjórnin míglak.