149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

ráðherraábyrgð og landsdómur.

[16:56]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Lýðræði er versta tegund stjórnarfars sem til er fyrir utan allar hinar. Þetta er ein af þeim fjölmörgu tilvitnunum sem ranglega eru eignaðar Winston Churchill. Þetta á að sumu leyti við í landsdómsmálinu. Öll samfélög standa í raun og veru frammi fyrir spurningunni: Hvaða kerfi eigum við að hafa til að taka á því ef ráðherrar brjóta af sér í starfi? Hugmyndin um að ekki eigi að gera neitt, að almenningur sé í raun og veru dómstóllinn, þetta komi bara allt í ljós í næstu kosningum og við þurfum ekkert að taka ábyrgð á gjörðum okkar á ráðherrastóli fyrr en að næstu kosningum kemur, er einfaldlega ekki nógu góð. Hún særir réttlætiskennd ansi margra. En við viljum heldur ekki sjá kerfi þar sem fólk keppist við að klaga pólitíska andstæðinga sína til almennra löggæsluyfirvalda með allri þeirri hættu sem því fylgir á pólitískri misbeitingu ákæru- og dómsvaldsins. Við þurfum samt kerfi sem virkar. Við höfum sem samfélag farið landsdómsleiðin sem gerir ráð fyrir ferli sem er flókið að setja af stað og er ekki notað af léttúð.

Hér hefur mörgum hv. þingmönnum orðið tíðrætt um að kerfið virki ekki og að dæmi sem við höfum um það sýni það. Ég get að mörgu leyti tekið undir það. Ég get að mörgu leyti tekið undir nauðsyn þess að við uppfærum þetta kerfi okkar í takt við nútímastjórnarhætti. Hvernig við getum slípað ferlið í ljósi reynslunnar er eitthvað sem við verðum að gera saman. Það er eitthvað sem hæstv. forsætisráðherra hefur ekki bara boðað heldur hefur sagt að verið sé að vinna að.

Rætt hefur verið um að hægt sé að endurskoða lög um ráðherraábyrgð og landsdóm. Það er vel, því að eins og ég segi er það eitthvað sem við þurfum að uppfæra í takt við nútímastjórnarhætti.