149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

ráðherraábyrgð og landsdómur.

[17:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í framhaldi af því sem ég sagði í fyrri ræðu vildi ég koma nánar inn á að við endurskoðun á því fyrirkomulagi sem gildir um þetta efni þurfum við að spyrja okkur ákveðinna grundvallarspurninga. Það eru grundvallarspurningar í fyrsta lagi um það hvaða atriði það eru nánar sem við teljum að eigi undir sérlög um refsiábyrgð ráðherra, hvaða atriði eiga þá undir önnur lög, aðra refsilöggjöf í landinu, ef um slík brot er að ræða og síðan skilsmuninn á milli lagalegrar ábyrgðar annars vegar og pólitískrar ábyrgðar hins vegar, sem ég held að menn megi ekki gera lítið úr. Pólitísk ábyrgð getur birst á ýmsan hátt, m.a. í því aðhaldi sem menn verða fyrir í ráðherradómi sínum á þingi, í fjölmiðlaumfjöllun, almennri þjóðfélagsumræðu og síðan með reglulegu millibili í kosningum. Pólitíska ábyrgðin getur birst á ýmsan hátt og það er ekki einhlítt að líta til vantrausts eða úrslita í vantraustsatkvæðagreiðslum í þeim efnum.

Hin hliðin sem við þurfum að velta fyrir okkur, ef við erum að velta fyrir okkur sérreglum um ráðherraábyrgð að lögum eða refsiábyrgð ráðherra að lögum, er hvort það fyrirkomulag sé heppilegt sem við búum við í dag, þar sem ákvörðun um saksókn er í höndum þingsins, að stjórnmálamenn taki ákvarðanir um málsókn í refsilögum hver á hendur öðrum. Ég tel að svo sé ekki og tel að við verðum á einhvern hátt að hanna kerfi sem kemur okkur undan þeirri stöðu, sem við höfum (Forseti hringir.) að mínu mati vonda reynslu af.