149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

ráðherraábyrgð og landsdómur.

[17:03]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar til að þakka málshefjanda, hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni, fyrir að bera þetta upp. Ég held að umræðan sé þörf. Hér er spurt um landsdóm í þremur liðum og stutta svarið við þeim er, ef ég má, já við fyrstu spurningunni og einnig við þeirri þriðju.

Eru lög um ráðherraábyrgð úrelt þar sem réttað er fyrir landsdómi? Eins og hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, kom inn á, þá eru lögin yfir hálfrar aldar gömul og menn sóttu ráðherradóm sinn til konungs. Ég held að það segi allt sem segja þarf. Við erum með ráðherra hér í dag sem sækja ekki ráðherradóm sinn til þjóðarinnar í þeim skilningi heldur eru þeir skipaðir af flokkunum. Og við erum líka með nokkur dæmi þess að ráðherrar hafi verið skipaðir í embætti án þess að vera kjörnir af þjóðinni.

Það eru dæmi um það að ráðherrar hafi brotið lög, setið sem fastast og jafnvel tekið sæti aftur eftir að hafa staðið upp úr ráðherrastóli í reglubundnum kosningum. Og hvar er línan dregin við slíkt lögbrot?

Í lögum um ráðherraábyrgð eru nokkrar greinar. Í 10. gr. segir að ráðherra verði sekur eftir lögunum, með leyfi forseta, „ef hann misbeitir stórlega valdi sínu enda þótt hann hafi ekki beinlínis farið út fyrir embættismörk sín“.

Í 11. gr. segir: „Brot gegn lögum þessum varða, eftir málavöxtum, embættismissi, sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.“

Er það þegar ráðherrar fara gróflega út fyrir embættisverk sín? Brjóta lög? Eða er það þegar menn svara ekki fyrirspurnum sem til þeirra er beint frá þjóðkjörnum þingmönnum?

Ég held að þetta veki upp margar spurningar og ég held að það sé algjörlega tímabært að við tökum þetta til gagngerrar endurskoðunar.