149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

ráðherraábyrgð og landsdómur.

[17:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Til þess að summa upp umræðuna hérna þá hljómar þetta dálítið þannig að ómöguleiki núverandi fyrirkomulags leiði í rauninni til friðhelgi ráðherra. Það má nefnilega ekki líta það alvarlegum augum þegar mál eru send í landsdóm. Það verður að líta á það sem tækifæri til að eyða vafa. Braut dómsmálaráðherra lög um ráðherraábyrgð með skipan sinni á dómurum í Landsrétt? Braut fjármálaráðherra lög um ráðherraábyrgð með því að stinga skýrslum ofan í skúffu fyrir kosningar 2016? Braut utanríkisráðherra lög um ráðherraábyrgð með skipum Geirs H. Haarde í sendiherrastöðu? Braut forsætisráðherra lög um ráðherraábyrgð með því að greina ekki frá hagsmunaárekstri vegna tengsla við kröfur í föllnu bankanna?

Öll þau dæmi sem hér eru upp talin tel ég augljóst að geti varðað lög um ráðherraábyrgð, svo augljóst að það hlýtur að vera skylda okkar að eyða þeim vafa sem er um þau mál með því að vísa þeim í þann farveg sem núverandi lög og stjórnarskrá gera ráð fyrir. Þannig byggjum við upp traust, með því að láta lögin virka. Við byggjum upp traust með því að eyða vafa, annaðhvort með því að staðfesta að grunur sé á rökum reistur eða með því að fá niðurstöðu um sakleysi.

Við getum eytt tíma í að tala um að búa til ný og falleg kerfi, eytt tíma í að tala um að endurskipuleggja þurfi hitt og þetta. Á meðan sitja mögulega ráðherrar sem hafa brotið lög um ráðherraábyrgð. Og þótt að við breytum fyrirkomulaginu sitjum við uppi með þau meintu brot ráðherra gagnvart gamla fyrirkomulaginu.

Núna meðhöndlum við t.d. skýrslubeiðnir á Alþingi þannig að það kemur fram skýrslubeiðni og þingið samþykkir almennt að þær gangi í gegn. Kæra til landsdóms ætti ekki að vera mikið öðruvísi. Þegar hún er á rökum reist, á málefnalegum forsendum, þá látum við hana einfaldlega ganga í gegn. Landsdómur hefur nefnilega skilað rosalega góðri niðurstöðu sem hefur verið rakin alla leið í gegnum þau ýtrustu kerfi sem eru til til að votta um gæði þeirrar niðurstöðu. Þannig að þó að okkur sé ekki treystandi er landsdómi treystandi.