149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[17:25]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá 1. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og þar erum við tveir hv. þingmenn, hv. þm. Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, og sá sem hér stendur.

Samkvæmt stjórnarskrá skipar forsetinn ráðherra og veitir þeim lausn. Sömuleiðis ákveður hann tölu þeirra og skiptir með þeim störfum með forsetaúrskurði. Þetta gerir forseti að tillögu og á ábyrgð forsætisráðherra.

Í lögum um Stjórnarráð Íslands er kveðið á um að það skiptist í ráðuneyti sem eru skrifstofur ráðherra og æðstu stjórnvöld framkvæmdarvaldsins á viðkomandi málefnasviði. Fjöldi og heiti ráðuneyta ásamt skiptingu stjórnarmálefna milli þeirra eru ákveðin í forsetaúrskurði að tillögu og á ábyrgð forsætisráðherra eins og áður kom fram.

Fyrsti minni hluti telur að lögin um Stjórnarráð Íslands takmarki ekki þessa heimild forsætisráðherrans. Helst er að 2. mgr. 4. gr. laganna komi til skoðunar í þessu samhengi. Hún kveður á um að þess skuli jafnan gætt að eðlislík stjórnarmálefni heyri undir sama ráðuneyti. Ákvæðið er hins vegar svo opið að forsætisráðherra hefur nánast frjálsar hendur í þessum efnum.

Fyrsti minni hluti telur að lögin um Stjórnarráð Íslands takmarki ekki þessa heimild forsætisráðherrans. Helst er að 2. mgr. 4. gr. laganna um stjórnarráð Íslands komi til skoðunar í þessu samhengi. Hún kveður á um að þess skuli jafnan gætt að eðlislík stjórnarmálefni heyri undir sama ráðuneyti. Ákvæðið er hins vegar mjög opið og svo opið að forsætisráðherra hefur nánast frjálsar hendur í þessum efnum.

Fyrsti minni hluti bendir á að í 2. gr. laganna um Stjórnarráði Íslands eru engin fyrirmæli um efni, form eða rökstuðning þingsályktunartillögunnar sem lögð skuli fyrir Alþingi.

Fyrsti minni hluti telur að eins og lagaumgjörðin um skipan ráðherra, ráðuneyti og skiptingu stjórnarmála er úr garði gerð sé í raun einungis gert ráð fyrir staðfestingu Alþingis að forminu til á fjölda og heitum ráðuneyta.

Fyrsti minni hluti telur að gera verði ráð fyrir að forsætisráðherra setji ekki fram hugmyndir um skipan ráðuneyta og heiti þeirra í óþökk ríkisstjórnar sinnar og þar með þess meiri hluta sem ríkisstjórnin styðst við á Alþingi. Þegar af þeirri ástæðu sé ekki ástæða til þess að leita formlegrar staðfestingar Alþingis eins og lög um Stjórnarráðið gera nú ráð fyrir.

Fyrsti minni hluti telur að það sé eðlilegur þáttur í aðgreiningu framkvæmdarvalds og löggjafarvalds að löggjafarvaldið hlutist ekki til um hvernig skipan, heitum eða fjölda ráðuneyta er háttað né heldur ráðstöfun stjórnarmálefna milli ráðuneyta. Löggjafarvaldið hefur aðrar leiðir til þess að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og hafa með því eftirlit. Af þessum sökum telur 1. minni hluti rétt að lögin um Stjórnarráð Íslands verði endurskoðuð.

Fyrsti minni hluti telur að öllu framansögðu og virtu hvorki rétt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lýsi yfir stuðningi né leggi til að ætlan forsætisráðherra verði hindruð en leggi til að Alþingi álykti þess í stað einungis um að breytingin á skipan ráðuneytanna samrýmist lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, eins og þau eru nú úr garði gerð.

Fyrsti minni hluti leggur þess vegna til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu og hljóði svo eftir breytinguna:

„Alþingi ályktar að fyrirhuguð breyting á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sem felur í sér að í stað velferðarráðuneytis komi annars vegar heilbrigðisráðuneyti og hins vegar félagsmálaráðuneyti, samrýmist lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011.“

Lýkur þá lestrinum á tillögugreininni. Undir þetta rita hv. þm. Helga Vala Helgadóttir og Jón Steindór Valdimarsson.

Nú ætla ég aðeins að víkja frá nefndarálitinu og feta í fótspor hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés og mæla nokkur orð frá eigin brjósti. Ég vil byrja á því að segja að vinnan í nefndinni var ágæt og það komu fjölmargir gestir. Það voru mjög miklar og góðar umræður um efni tillögunnar og sýndist svo sem sitt hverjum. Þetta er allt saman ágætlega reifað í áliti meiri hlutans. Eftir því sem leið á alla umfjöllun fór maður að velta því fyrir sér til hvers þetta væri nú eiginlega allt saman. Ég held að ég fari rétt með að þetta sé í þriðja sinn sem þingsályktunartillaga af þessu tagi kemur til afgreiðslu í þinginu og það er á sama veg, það kemur tillaga til þingsályktunar frá forsætisráðherra, stjórnarliðar verja og styðja tillögu forsætisráðherrans í ríkisstjórninni og telja henni flest til tekna. En á hinn bóginn eru þeir sem skipa stjórnarandstöðu svona frekar á því að þetta sé meira til óþurftar en hitt.

Þá fór maður að velta þessu fyrir sér og spyrja: Til hvers er þetta? Eftir því sem ég velti þessu meira fyrir mér og fór að lesa mér aðeins til um sögu laganna um Stjórnarráðið, þá skil ég satt að segja ekki, og vísa þá til nefndarálits minni hlutans, til hvers þetta er. Og þegar maður veltir fyrir sér þrígreiningu valdsins hef ég í þessari vinnu núna — ég hef áður verið í þeim sporum að vera framsögumaður á svona tillögu, á öðru kjörtímabili, þannig að ég þekki þetta frá fleiri hliðum — hugsað: Þetta er einhvern veginn ekki rétt.

Við erum með ríkisstjórn sem á að framkvæma það sem Alþingi mælir fyrir um eða samkvæmt lögum frá Alþingi. Hvernig forsætisráðherra og ríkisstjórnin telur best að haga öllum sínum störfum, þar á meðal skiptingu verkefna, á og verður að vera á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og þar með forsætisráðherra. Ef forsætisráðherra hagar málum óskynsamlega, fer að stokka upp ráðuneyti sem verða óskilvirk eða vinna ekki að þeim verkefnum sem þeim er ætlað, hlýtur það að bitna á störfum ríkisstjórnarinnar. Þar með hlýtur það að kalla á aðhald og eftirlit þingsins með því hvort verið er að vinna að þeim verkefnum sem framkvæmdarvaldinu hafa verið falin. Þá er líka hægt að beita fjárveitingavaldinu. Ef forsætisráðherra tæki upp á því einhvern tímann að fjölga ráðuneytum eða stjórnarskrifstofum úr hófi, á þingið þá leið að skrúfa fyrir fjárveitingar þannig að ríkisstjórnin verði að sníða sér stakk eftir vexti.

Þetta er í aðalatriðum það sem ég held að ég vilji segja um þetta mál. Kjarninn er þessi: Mér finnst að sumu leyti að við séum að eyða tíma þingsins svolítið í óþarfa. Við vitum hvernig málið fer. Við vitum að það verður ekki tekið tillit til þeirra athugasemda sem koma fram. Það koma gestir fyrir nefndina með vonarglampa í augum til þess að sannfæra nefndarmenn um að það sé kannski ekki skynsamlegast að gera svona og hinsegin og við kinkum kolli og spyrjum út úr og segjum: Aha. Síðan gerist ekki neitt. Mér finnst það ekki skynsamlegt að vera að vekja falsvonir.

Hitt er svo annað mál að auðvitað getur forsætisráðherra á hverjum tíma, og ég held að það sé skynsamlegt, leitað viðhorfa kannski fyrst og fremst þeirra sem verkefni ráðuneytanna ná til, þ.e. til þeirra sem heita á nútímaíslensku haghafar, og hlustað á þeirra sjónarmið og síðan eru ákvarðanir teknar á þeim grundvelli.

Þegar ég var að skoða nýjustu útgáfuna af þessum lögum rakst ég á að talsverðar umræður urðu um það árið 2011, held ég að ég muni rétt, þegar lögin voru sett, að þá var ekki ákvæði í því frumvarpi um að þingið ætti að hafa afskipti af þessum málum. Það varð mikið uppþot og miklar umræður um þetta í þinginu á sínum tíma. Þar voru menn að tala um að með þessum hætti væri verið að ýta undir foringjadýrkun og það væri með öllu ófært að þingið kæmi ekki að málinu. Það voru ýmis sjónarmið í þessu sem ég las vel yfir en ég sannfærðist ekki. Ég held að það hafi verið einhver pólitísk valþröng á sínum tíma sem varð til þess að frumvarpinu var síðan breytt. Ég sé ekki að það hafi leitt til neinna sérstakra framfara eða umbóta, með þeim rökum sem hér hafa verið rakin áður. Ég er enn sannfærður um að við eigum að láta framkvæmdarvaldið um að skipa þessum málum eins og það best kýs. Við höfum önnur verkfæri til að veita aðhald og ef menn haga sínum málum ekki með skynsamlegum hætti kemur það þeim sjálfum í koll. Ég held að hvatinn til að haga þessum málum skynsamlega sé nægur. Við skulum heldur ekki víkja okkur undan því að horfast í augu við það að stundum er pólitísk nauðsyn eða tilefni, menn þurfa einfaldlega að raða fólki í ríkisstjórnir eftir flokkum og samsetningu þeirra sem að ríkisstjórninni standa. Það kann að vera skynsamlegt fyrir allt og alla að það hafi í för með sér breytingar á ráðuneytum. Það er þá verkefni forsætisráðherrans að skipa þar til verka og skipta verkum með skynsamlegum hætti.

Að svo mæltu vonast ég til þess að álit minni hlutans fái góða skoðun og ég fagna því auðvitað að flutningsmaður tillögu meiri hlutans, þegar hann var kominn með sinn eigin hatt á höfuðið, var frekar jákvæður í garð þessarar versjónar af tillögunni, sem felur í sér að hún er algjörlega hlutlaus gagnvart efni málsins, þ.e. þeirrar skipunar og verkefna sem lagt er til. En undirtónninn er síðan að breyta þessu í framtíðinni.