149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[17:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. framsögumaður 1. minni hluta svaraði einni af þeim spurningum í lok ræðu sinnar sem ég ætlaði að koma að í þessu andsvari en ég lít svo á að túlka megi það svo að 1. minni hluti nefndarinnar taki ekki efnislega afstöðu til tillögunnar sem slíkrar, þ.e. þeirrar breytingar að skilja á milli heilbrigðis- og velferðar- eða félagsmálahluta núverandi velferðarráðuneytis. Það er ágætt að það sé skýrt.

Ég skil ræðu hans líka þannig — og bið hann að leiðrétta mig ef svo er ekki — að hann telji að framtíðarfyrirkomulag þessara mála eigi að vera með þeim hætti að ríkisstjórn, eða forsætisráðherra eftir atvikum, geti tekið ákvörðun um skiptingu ráðuneyta. Þá er ég að tala um stofnun ráðuneyta, eða þess vegna niðurlagningu þeirra, með forsetaúrskurði, að ekki þurfi atbeina Alþingis til.

Það er rétt, sem fram kom í máli hans, að þetta var töluvert umdeilt mál þegar svona mál kom fram 2011. Ég átti nokkurn þátt í þeim ágreiningi. En hann snerist auðvitað að hluta til um það að þrátt fyrir að framkvæmdarvaldið sé sjálfstætt í störfum sínum er það engu að síður svo að um framkvæmdarvaldið gilda lög og framkvæmdarvaldið er bundið því að starfa innan lagaramma. Meðal þeirra atriða sem þar getur reynt á er stofnanaleg (Forseti hringir.) skipulagning og fyrirkomulag stjórnarstofnana, þar á meðal ráðuneyta.