149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[18:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig minnir að það að fá inn í þingið þingsályktunartillögu sem fjallaði um stofnun nýrra ráðuneyta eða breytingar á því fyrirkomulagi hvaða ráðuneyti eru starfandi í landinu, hafi einmitt þjónað þeim tilgangi að gefa þinginu einhverja aðkomu að þessum málum. Reyndar takmarkaðri að því leyti að verkaskipting, skipan málaflokka og annað þess háttar er ekki ákvörðunaratriði þingsins sjálfs heldur er ákveðið með forsetaúrskurði þannig að þar eru auðvitað ákveðinn sveigjanleiki fyrir hendi fyrir framkvæmdarvaldið.

Hugmyndin sem við getum sagt að fæddist í þeim deilum sem áttu sér stað um frumvarpið 2011 skilaði þó þeirri niðurstöðu að það var gert ráð fyrir að þingið hefði einhverja aðkomu þó að hún væri takmarkaðri en var fyrir hendi áður. Ég veit að það hafa auðvitað verið ýmsar skoðanir uppi í þessum efnum í gegnum tíðina og ekkert endilega farið eftir flokkspólitískum línum heldur ýmsum öðrum sjónarmiðum.

Ég verð að segja að miðað við það að ríkisstjórnir þurfa að koma í gegn ýmsum breytingum og leita samráðs og samþykkis þingsins fyrir afskaplega mörgu sem þær gera, þá finnst mér ekki of mikið í lagt eða of þung kvöð lögð á ríkisstjórn ef hún ætlar að stofna ný ráðuneyti, skipta upp ráðuneytum sem eru fyrir hendi eða leggja niður ráðuneyti, að beri hún það með einhverjum hætti undir þingið eins og raunar er verið að gera hér. Ég get síðan haft þá skoðun að það geti verið æskilegt að auka jafnvel aðkomu þingsins að þessum efnum og vildi kannski spyrja hv. þingmann um afstöðu hennar til þess.