149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[18:21]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu þar sem víða var komið við. Eins og þingsályktunartillagan er úr garði gerð og lögð fram segir samkvæmt orðanna hljóðan að Alþingi álykti að styðja fyrirhugaða breytingu. Væri þá ekki nær, ef verið er að leita að efnislegu áliti, að þar stæði „samþykkir tillöguna“, þ.e. samþykkir fyrirhugaða breytingu?

Í öðru lagi: Væri þá ekki rétt til þess að þingið gæti raunverulega tekið efnislega afstöðu, ef við höldum okkur við það, að þingsályktunartillagan væri mun ítarlegri? Hún segir náttúrlega voðalega lítið, þó að sjálfsögðu sé í greinargerð rakið ýmislegt, en það er ekki það sem Alþingi er að styðja við eða samþykkja. Væri þá ekki rétt að verkefnaskiptingin og allt heila dótaríið væri undir (Forseti hringir.) þannig að Alþingi gæti í raun breytt lagaumhverfinu og skipað framkvæmdarvaldinu fyrir?