149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[18:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að það hefði mátt orða tillöguna með öðrum hætti. Ég held að það komi ekki að sök en vissulega hefði verið hægt að orða þetta á annan veg. Með sama hætti hefði verið hægt að orða lagaákvæði skýrar, ég get alveg tekið undir að hægt hefði verið að gera það. Ég held hins vegar, ef menn lesa lögskýringargögn og nefndarálit og ræður sem fluttar voru við afgreiðslu málsins á sínum tíma 2011, að enginn þurfi að velkjast í vafa um að tilgangur þess að leggja tillöguna fyrir þingið sé að fá fram afstöðu þingsins til efnis málsins. Það er síðan rétt, sem vakin er athygli á í nefndaráliti 1. minni hluta, að lagaákvæðið hefur að öðru leyti ekki að geyma neina leiðbeiningu um það hvert form (Forseti hringir.) þingsályktunartillögunnar eigi að vera eða framsetning. Það er alveg hárrétt sem þar er bent á.