149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[18:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég myndi nú álíta að ef forsætisráðherra gerir tillögu til Alþingis um tilteknar breytingar á ráðuneytaskipan í landinu og Alþingi hafnar þeim breytingum væri forsætisráðherra ekki með neinum hætti heimilt að fara áfram með málið. Nú hefur aldrei reynt á þetta, en ég myndi segja að það væri miklu langsóttari lögskýring sem leiddi til þess að forsætisráðherra væri óbundinn af skýrri niðurstöðu Alþingis í þessum efnum en bundinn, sérstaklega þegar horft er til þess að ákvæðið eins og það hljómar er beinlínis gert í þeim tilgangi að fá aðkomu Alþingis að þeirri ákvörðun sem hér um ræðir. Það er augljóst af umræðum og nefndarálitum og breytingartillögum, sem fram komu um þetta mál, að ætlast var til aðkomu Alþingis (Forseti hringir.) og það væri afar órökrétt ef það hefði engar afleiðingar ef Alþingi hafnaði tillögu forsætisráðherra að þessu leyti.