149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[18:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég held að það verði að túlka það með þeim hætti. Ef það fyrirkomulag er á annað borð fyrir hendi að þingið hafi einhverja aðkomu að fyrirkomulagi þessara mála þá felur það í sér að allar ákvarðanir sem eru teknar þurfa að styðjast við vilja meiri hluta þingsins, hvernig svo sem hann er samansettur, hvort sem ríkisstjórnin er minnihlutastjórn eða meirihlutastjórn. En það er alveg hárrétt ábending hjá hv. þingmanni að auðvitað er ekki sjálfgefið að í landinu sé meirihlutastjórn. Minnihlutastjórnir þurfa jafnan að leita eftir stuðningi við sín mál. Þótt þær séu minnihlutastjórnir þá þurfa þær meiri hluta til að koma málum í gegnum þingið, stórum málum og smáum. Auðvitað getur líka verið sú staða uppi að forsætisráðherra eða eftir atvikum ríkisstjórn í heild sé ekki í takt við (Forseti hringir.) þingmenn sinna flokka. Sú staða getur því vel komið upp að í einstökum málum komist vilji (Forseti hringir.) forsætisráðherra eða ríkisstjórnar ekki til framkvæmda vegna andstöðu einstakra (Forseti hringir.) aðila að ríkisstjórninni.