149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[18:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í okkar fyrirkomulagi eru skilin milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds ógleggri en í þjóðskipulagi eða stjórnskipun ýmissa annarra ríkja, en þó er það engu að síður þannig að við álítum að dómstólaskipanin í landinu byggi á því að dómstólarnir séu sjálfstæðir. Samt sem áður setjum við lög sem segja fyrir um skipulag dómstólanna. Við segjum í lögum hvaða dómstólar eigi að vera fyrir hendi og starfandi í landinu. Við lítum svo á að það sé nauðsynlegt að lög binda hvernig sú skipan er útfærð. Við höfum með sama hætti álitið að framkvæmdarvaldið þyrfti að starfa samkvæmt ramma, lagaramma, sem löggjafarvaldið ákveður. Álitamálið í þessu efni er hins vegar það, og um það erum við kannski ekki sammála, hvort tilurð (Forseti hringir.) ráðuneyta, stofnun nýrra ráðuneyta, uppskipting þeirra eða niðurlagning, sé slík ákvörðun að hún eigi að vera undir þinginu eða ekki. En vonandi (Forseti hringir.) höfum við tækifæri til að ræða það síðar ef við förum í umræður um lagafrumvarp (Forseti hringir.) um þetta efni en ekki umræður um þingsályktunartillögu sem takmarkar töluvert hvað við getum rætt (Forseti hringir.) og hvað ekki í þessum efnum.

(Forseti (BHar): Forseti mælist eindregið til þess að þið ræðið það síðar og virðið tímamörk.)