149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[18:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg nú, þegar skoðaðar eru tölur í þessu máli, að ekki sé bara um að ræða kostnað inni í þeim tölum sem hann nefnir sem tengjast uppskiptingu ráðuneytanna heldur er verið að tala um að bæta fé í einhverja málaflokka í leiðinni. Það er það sem ég hef skilið í þessari umræðu. Það má auðvitað alltaf velta því fyrir sér hversu miklum fjármunum er varið í einstaka málaflokka. En ég held hins vegar að kostnaður sem fylgir því að taka þá ákvörðun að skilja að þessa mismunandi hluta velferðarráðuneytisins sé ekki verulegur í heildarsamhengi hlutanna, ekki síst þegar um er að ræða málaflokka sem eru í sjálfu sér útgjaldamestu málaflokkar ríkisins að þessu leyti.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að of stór ráðuneyti með of marga málaflokka undir séu ekki heppileg. Ég held að það sé heppilegra að (Forseti hringir.) ráðherrar hafi tækifæri til að einbeita sér betur að tilteknum sviðum (Forseti hringir.) en séu ekki með of margt undir. Ég held að fyrir því séu skýr og góð rök.