149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[18:38]
Horfa

Alex B. Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á að þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa talað um þetta mál. Ég tek undir að það er mikilvægt að þingið fái aðkomu að slíkum ákvörðunum, fái rödd, fái að koma með sjónarmið. Ég tek undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni að þetta er skynsamleg framkvæmd. Hún gerir ráðherrum betur kleift að fylgja eftir, hnitmiðað, sínum málaflokkum. Þetta eru gríðarlega stórir málaflokkar og mikilvægir og þessi verkefni, jafnréttismál, heilbrigðismál, velferðarmál og húsnæðismál, sýna forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, að hún vilji ganga skörulega í þessi verkefni og hafa tækifæri til þess að vinna að framgangi þeirra. Hafi menn eitthvað út á málin sem slík að setja þá er sjálfsagt að þingið komi frekar að því.