149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[18:59]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara í löngu máli yfir skoðun mína á þessu, en þegar horft er til skipulags framkvæmdarvaldsins þá hlýtur orðið skilvirkni að þurfa að koma þar mjög ofarlega í forgangsröðuninni. Það skiptir máli hversu mikill kostnaður er af rekstri Stjórnarráðsins, hversu mikið fjármagn rennur í rekstur ráðuneytanna sjálfra. Þetta mál finnst mér endurspegla algjört virðingarleysi fyrir kostnaði. Það er engin tilraun gerð í nefndaráliti meiri hluta til að færa rök fyrir því hvaða ávinningur eigi að hljótast af uppskiptingu velferðarráðuneytisins. Þetta er þvert ofan í það sem mikið var rætt um í tengslum við sameiningu félagsmálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins á sínum tíma, megintilgangur þeirrar sameiningar var hafa sterkara, öflugra ráðuneyti sem væri betur í stakk búið til að takast á við þau gríðarlega stóru og flóknu verkefni sem undir það ráðuneytið falla, en ekki síður að nýta þá möguleika til samvinnu og samstarfs milli félagsmálahluta ráðuneytisins og velferðarhluta ráðuneytisins.

Það er ótvírætt og maður heyrir það alls staðar þar sem maður kemur og þegar rætt er við fagaðila á þessu sviði að þarna eru stærstu tækifærin okkar. Við verjum í dag um 50% útgjalda ríkissjóðs til þessara tveggja málaflokka, um 450 milljörðum hið minnsta. Það er alveg ljóst að samhliða öldrun þjóðarinnar, auknum kröfum til heilbrigðiskerfis, auknum kröfum í velferðarmálum, mun þessi kostnaður bara aukast hjá okkur. Það gerir þá kröfu á hendur okkur stjórnmálamönnum að við sýnum einhverja framsýni í því hvernig má skipa þessum málum betur, hvernig má samnýta betur það sem mætti kalla fjárfestingu í velferðarkerfinu, að við séum að kosta útgjöld á t.d. sviði félagsmála, í aukinni áherslu á starfsendurhæfingu, ýmiss konar félagslegan stuðning sem við vitum að getur sparað okkur veruleg útgjöld þegar fram í sækir á heilbrigðissviðinu. Hið sama á auðvitað við um hið gagnstæða, að það sé rétt forgangsröðun innan heilbrigðiskerfisins þannig að tímabundinn heilsubrestur leiði t.d. ekki til varanlegrar örorku o.s.frv. Það sé horft á þetta í samfellu. Hér er ekki minnsta tilraun gerð til þess að rökstyðja þessa ákvörðun og það er einfaldlega af því að hún er auðvitað bara pólitísk. Ráðherrum líður betur með fullkomlega aðskilin ráðuneyti en að starfa sem tveir ráðherrar innan eins ráðuneytis.

Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að við megum vænta þess fljótlega að frá þessari ríkisstjórn komi þingsályktunartillaga um uppskiptingu atvinnuvegaráðuneytisins. Það hlýtur eiginlega að liggja í hlutarins eðli út frá þessu.

Svo því sé til haga haldið þá erum við hér bara í fjárlagaumræðunni að verja 300 milljónum í kostnaðarauka í stjórnsýslunni út af þessum breytingum og vanfjármögnuðum breytingum vegna uppskiptingar innanríkisráðuneytisins. Ég held að þessu fé sé talsvert betur varið í öðrum málaflokkum. Á sama tíma var fyrirhuguð kaupmáttaraukning eldri borgara og öryrkja skorin niður í núll. Þetta lýsir fullkomnu virðingarleysi fyrir rekstrarkostnaði ríkissjóðs. Hér eru við stjórnvölinn flokkar sem fara ekki vel með almannafé, eru ekki með skýra eða öfluga forgangsröðun varðandi það fjármagn, bera ekkert skynbragð á rekstur ríkisins. Lykillinn í þessu hlýtur að vera að halda rekstrarkostnaði ríkissjóðs sjálfs niðri til að við höfum sem mest fé milli handanna til málaflokkanna, til stuðnings við fólk, til aðgerða í heilbrigðiskerfinu, til stuðnings við skjólstæðinga í velferðarkerfinu og svo mætti áfram telja. Þessa áherslu er ekki að finna hér. Það veldur miklum vonbrigðum.

Það sem veldur eiginlega meiri vonbrigðum er að mér finnst þessi uppskipting endurspegla það að þessir flokkar hafa enga yfirsýn yfir velferðarmálin. Það er engin heildarsýn á samspil félagsmálanna og heilbrigðisþjónustunnar. Þetta er bara pólitík í þrengsta skilningi um þægindaramma ráðherra sem vilja starfa í aðskildum ráðuneytum en ekki um það hvaða samlegð megi ná með auknu samstarfi innan ráðuneytisins.

Það kom m.a. fram í umsögn Samtaka íslenskra sveitarfélaga á sínum tíma við sameiningu ráðuneytanna, sem samtökin árétta í umsögn sinni um þetta mál núna, að þarna sáu menn gríðarlega mikil tækifæri en því fylgdi aldrei heildstæð stefnumótun á sviði velferðarmála og því fór sem fór. Það náðist aldrei það samstarf innan ráðuneytisins sem að var stefnt. Það gerist auðvitað ekki af sjálfu sér, það þarf pólitíska forystu til að ná fram slíku samstarfi. Það þarf mikla vinnu innan ráðuneytanna og það ættu velflestir að þekkja sem hafa komið að slíkum sameiningum, hvaða skipulagseiningu sem er, að það tekur tíma og mikla vinnu að ná fram þeim markmiðum sem að er stefnt. Það gerist ekki af sjálfu sér. En það sem er verra er að þessi hringlandaháttur í skipulagi Stjórnarráðsins þýðir auðvitað að þetta næst aldrei fram. Þegar við erum stöðugt að stokka upp ráðuneytin eftir pólitískum þörfum hvers meiri hluta þá þýðir það að það verður aldrei starfsfriður innan þessara sömu ráðuneyta til að ná skýrum fókus á sín viðfangsefni.

Það hefur verið vel þekkt í íslenskri stjórnsýslu að ráðuneytin okkar hafa talist mjög lítil í öllu samhengi, mjög veikburða að mörgu leyti. Á sama tíma erum við að leggja á þau mjög auknar kröfur þegar kemur að lögum um opinber fjármál. Þar er gríðarlega mikilvægt verkefni að ráðuneytin hafi skýra sýn á sína málaflokka, ekki síst kostnaðarþætti þeirra. Við höfum séð það innan fjárlaganefndar að oft vantar verulega mikið upp á að ráðuneytin hafi einfaldlega þá burði sem þarf til þess að ráðast í þær greiningar sem nauðsynlegt er. Þess vegna held ég að sú stefna sem var mörkuð hér 2011 með sameiningu ráðuneytanna hafi verið skynsamleg, að stækka einingarnar og gera þær betur í stakk búnar til að sinna þessum mikilvægu verkefnum. Hér er í raun og veru verið að vinda ofan af þeirri stefnu án þess, svo ég segi það enn og aftur, að nokkuð liggi fyrir um hver ávinningurinn af slíkri uppskiptingu eigi að vera. En við þekkjum þá alla vega kostnaðarhliðina sem eru u.þ.b. 300 milljónir í viðbótarkostnað á ári hverju. Mér finnst það sorglegt. Eins og ég segi, það er engin virðing fyrir skattfé og það sem verra er, mér finnst þetta endurspegla skort á heildarsýn í þeim gríðarlega mikilvægu málaflokkum sem velferðarmálin eru.

Mig langar að lokum að taka undir orð hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar varðandi húsnæðismálin. Það þarf ekki að liggja lengi yfir húsnæðismálum til þess að átta sig á því að lykillinn að lausn í húsnæðismálum, sér í lagi því sem snýr að framboði á húsnæði fyrir alla þjóðfélagshópa, liggur auðvitað hjá sveitarfélögunum. Það er til lítils að sameina málaflokkinn innan Stjórnarráðsins ef sveitarfélögin eru ekki þar með. Úr því að ráðist var í þetta skref að sameina húsnæðismálin undir einu þaki, sem ég held að sé mjög skynsamlegt, hefðu þau átt að enda í ráðuneyti sveitarstjórnarmála. Það er einfaldlega þar sem stærsti lykillinn að húsnæðisvanda á hverjum tíma liggur, sem er auðvitað skipulagsmál sveitarfélaganna og samspil ríkisvalds og sveitarstjórnarstigsins á hverjum tíma í þeim efnum. Ég þekki það svo sem af eigin raun að félagsmálaráðuneytið var mjög léttvægt í húsnæðismálunum þar sem tveir veigamestu þættirnir, annars vegar sá sem snýr að byggingarreglugerð og Mannvirkjastofnun og hins vegar að skipulagsmálunum og sveitarstjórnarráðuneytinu, lágu utan ráðuneytisins. Þess vegna held ég, um leið og ég fagna því að verið sé að stíga skref í átt að sameina þetta undir einu þaki, að það hefði farið betur á því að því verki væri lokið að fullu og málaflokknum komið fyrir hjá sveitarstjórnarráðuneytinu.