149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

fimm ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019--2023.

403. mál
[19:09]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti Ég mæli fyrir tveimur þingsályktunartillögum um fjarskiptaáætlanir. Önnur felur í sér stefnu í fjarskiptum, netöryggismálum, póstmálum og málefnum Þjóðskrár Íslands fyrir árin 2019–2033 og hin felur í sér aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023 sem er hluti af og innan ramma 15 ára stefnunnar.

Undirbúningur stefnumótunar hófst í byrjun árs 2018 og var sett á fót verkefnisnefnd sem hélt utan um stefnumótunarstarfið. Formlegt samráð við framkvæmda-, samstarfs- og hagsmunaaðila hófst í júní sl. Verkefnisnefndin skilaði svo tillögum að þeim tveimur þingsályktunum sem hér er mælt fyrir en í þeim hefur verið tekið mið af þeim athugasemdum sem bárust gegnum samráðsgátt ráðuneytanna í október sl.

Tillögurnar sem hér eru lagðar fram eru í samræmi við stefnu ríkisstjórnar, áherslur ráðherra, aðrar áætlanir hins opinbera og niðurstöður opins samráðs.

Fjarskiptaáætlun er nú lögð fram í þriðja sinn. Fyrsta fjarskiptaáætlunin var samþykkt árið 2005 og sú næsta árið 2012. Það er sannfæring mín að þessar tvær fjarskiptaáætlanir hafi varðað þá farsælu þróun á sviði fjarskipta sem kom okkur í fyrsta sæti í fjarskiptum og upplýsingatækni árið 2017 að mati Alþjóðafjarskiptasambandsins. Reynslan sýnir okkur því að metnaðarfull áform og góð eftirfylgni geta skilað okkur miklum árangri, bæði fyrir atvinnulífið og, það sem er ekki síður mikilvægt, fyrir fólkið í landinu, jafnt í dreifbýli sem í þéttbýli. Það er mér því ánægja að leggja fram þriðju fjarskiptaáætlunina sem ég ætla að geti fleytt okkur enn lengra þannig að við höldum stöðu okkar sem eitt af forystulöndum heims í innviðum fjarskipta.

Fjarskiptaáætlun er nú lögð fram með aðeins breyttu sniði frá fyrri áætlunum með það að markmiði að gera efnistök hennar styttri og hnitmiðaðri. Í henni er horft til umtalsverðrar og fyrirsjáanlegrar tækniþróunar, endurskoðunar á fyrirliggjandi stefnum og sameiningu stefna í fjarskiptum, netöryggismálum, póstmálum og málefnum Þjóðskrár Íslands. Einnig er tekið mið af samþættingu allra stefna og áætlana sem falla undir málefnasvið ráðuneytisins.

Það er vissulega ærið tilefni til að endurskoða stefnuna í þeim málaflokkum sem hér eru undir. Þjóðir heims standa frammi fyrir mikilli áskorun þegar kemur að fjórðu iðnbyltingunni þar sem fjarskipti, upplýsingatækni, netöryggi og gervigreind leika lykilhlutverk. Birtingarmynd þeirra breytinga sem við nú þegar stöndum frammi fyrir er m.a. stórstígar framfarir í tækni, aukin sjálfvirkni, ör þróun í stafrænum samskiptum, síbreytilegt viðskiptamódel markaðsaðila og örar breytingar á regluverki ESB. Einnig má benda á að ríki heims standa nú frammi fyrir vaxandi ógnum á netinu og þurfa Íslendingar að bregðast við þeim af alvöru. Hvað varðar póstþjónustuna má benda á að það er stór áskorun að takast á við hraða fækkun bréfasendinga og vöxt í verslun á netinu með tilheyrandi pakkasendingum innan lands og milli landa. Þá vil ég nefna í þessu sambandi að ein allra mikilvægasta grunnskrá landsins, þjóðskráin, þarfnast endurnýjunar til að svara þeim kröfum sem m.a. Alþingi og almenningur gerir til hennar.

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að benda á að í áætluninni eru þrjú stór viðfangsefni sem eru háð skilyrði um sérstaka viðbótarfjárveitingu. Fyrst ber að nefna innleiðingu á svokallaðri NIS-tilskipun sem er grundvöllur brýnna umbóta í netöryggismálum þjóðarinnar. Í öðru lagi er það fjármögnun á mögulegum kostnaði ríkisins við að tryggja lágmarkspóstþjónustu. Í þriðja lagi eru það sérstök ljósleiðaraverkefni eins og þriðji fjarskiptasæstrengurinn til Evrópu, hringtenging ljósleiðara á Austfjörðum, auk úrbóta við að tryggja betur öryggi mikilvægra fjarskiptainnviða.

Þess ber að geta að landsátakið Ísland ljóstengt er þegar fjármagnað en það verkefni gekk reyndar undir vinnuheitinu „Ljós í fjós“ þegar lagður var grunnur að því en það hefur reynst ákaflega árangursríkt verkefni til að koma háhraðatengingum út í hinar dreifðu byggðir.

Að þessu frátöldu eru fjölmörg undirbúningsverkefni fram undan er tengjast þeirri miklu tækniþróun sem er hafin og fyrirséð. Þar er átt við fjórðu iðnbyltinguna, fimmtu kynslóð farneta, 5G, hlutanetið o.s.frv. og tengjast þessi verkefni meðal annars framþróun í samgöngum.

Sú áætlun sem hér er lögð fram felur í sér mikilvæga framtíðarsýn og markmið til næstu 15 ára. Mikilvægur grunntónn í áherslum og aðgerðum áætlunarinnar er traust og öryggi því að án öryggis getur traust á þeirri þjónustu sem veitt er horfið á svipstundu, hvort sem um er að ræða fjármál, samgöngur eða nýja tækni eins og netið. Netið býður upp á marga möguleika til að bæta þjónustu og auðga líf okkar. Það er nú þegar orðið óaðskiljanlegur þáttur í flestri þjónustu sem veitt er. En þessi víðtæka samþætta notkun skapar einnig hættu á alvarlegu þjónusturofi sé ekki hugað að öryggi og hún dregur um leið úr samkeppnishæfni þjóðfélagsins sé öryggi ekki sinnt með sambærilegum hætti og í grannlöndum okkar. Í stefnunni er því lögð áhersla á víðtæka eflingu netöryggis hjá hinu opinbera og í samfélaginu öllu.

Góð fjarskipti eru ein af forsendum þess að hér búi sjálfstæð nútímaþjóð. Aðgengi að öflugum og traustum fjarskiptatengingum hefur mikil áhrif á þróun byggðar og atvinnumála á Íslandi þar sem þær opna tækifæri fyrir hvers kyns rafræna þjónustu, netverslun, fjarnám og afþreyingu óháð búsetu svo nokkrir hlutir séu nefndir.

Samkeppnishæfni landsins á alþjóðamörkuðum á mikið undir góðri fjarskiptaþjónustu, háhraðatengingum og nýtingu upplýsingatækni og rafrænnar þjónustu almennt, hvort sem er innan lands eða milli Íslands og annarra landa.

Rétt er að benda á að samkvæmt lögum verður stefna í fjarskiptum og tilheyrandi aðgerðaáætlun endurskoðuð eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Þetta er mikilvægt þar sem þróun í málaflokkum sem fjarskiptaáætlun nær til geta og munu eflaust taka hröðum breytingum. Regluleg og ör endurskoðun er því nauðsynleg. Árlega verður formlega gerð grein fyrir framvindu markmiða og verkefna fjarskiptaáætlunarinnar. Jafnframt er stefnt að reglulegri uppfærslu helstu mælikvarða fjarskiptaáætlunar á vef ráðuneytisins.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni tillögunnar í stórum dráttum og legg til að henni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og síðari umr.