149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

fimm ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019--2023.

403. mál
[19:22]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er rétt sem hann kom inn á, að vaxandi ógnir á netinu eru farnar að teygja sig enn frekar inn í öryggis- og varnarmál og koma m.a. við sögu þegar við uppfærum þjóðaröryggisstefnu okkar. Það er gott að heyra áherslur hæstv. ráðherra í þeim efnum.

Annað sem mig langar að heyra nánar um er hluti af markmiðum sem finna má í þingsályktunartillögunni og lúta að umhverfisvænum fjarskiptum. Eins og segir í þingsályktunartillögunni verður stefnt að því að draga úr hnattrænum, svæðisbundnum og staðbundnum umhverfisáhrifum fjarskipta, póstþjónustu og þjónustu Þjóðskrár Íslands.

Mig langar að heyra hvernig hæstv. ráðherra sér það fyrir sér raungerast, vonandi og að sjálfsögðu með hag allra og umhverfisins að leiðarljósi.