149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

fimm ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019--2023.

403. mál
[19:23]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög mikilvæg spurning hjá hv. þingmanni og er reyndar vísað til loftslagsmarkmiða ríkisstjórnarinnar í þessari fjarskiptaáætlun. Það má svo sem halda því fram að fjarskipti séu í sjálfu sér umhverfisvæn vegna þess að í flestum tilvikum spara þau ferðir, þau spara flutninga. Til að mynda í póstþjónustunni hefur bréfum fækkað á örfáum árum úr 80 milljónum á ári í 20 milljónir á yfirstandandi ári og fækkar enn hraðar. Ástæðan er sú að menn eru farnir að senda tölvupósta og samskiptin eru komin yfir á netið. Það þýðir auðvitað að minni ástæða er til að vera að bera út póst á hverjum degi eins og áður var, enda höfum við fækkað dreifingu póstdaga á öllu landinu niður í tvo á viku, sem er umhverfisvænt. Þetta styður því hvert við annað ef við náum að efla fjarskiptin þannig að allir Íslendingar geti setið við sama borð. Þess vegna er verkefnið Ísland ljóstengt svo mikilvægt þar sem við getum fært öllum heimilum landsins þann möguleika að sitja við sama borð þegar kemur að þeirri mikilvægu þjónustu að geta sótt sér menntun og verslað og starfað yfir netið, að þurfa ekki fara nauðbeygður á vinnustað. Í sjálfu sér má halda því fram að fjarskipti, aukin fjarskipti, bætt fjarskipti, örugg fjarskipti, séu það umhverfisvænasta sem við getum gert. Það gæti kannski haft þær afleiðingar að fólk hætti að hittast en ég vonast að menn fái þá afsökun fyrir því að fara í annaðhvort göngutúr eða bíltúr einstaka sinnum í viku að heimsækja ættingja sína.