149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

fimm ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019--2023.

403. mál
[19:27]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir mjög áhugaverðar spurningar. Það er rétt sem kom fram í máli hans*, eins og ég nefndi í inngangi mínum, að það er stórmerkilegt að við skulum hafa náð því að vera fremst allra í heimi að mati Alþjóðafjarskiptastofnunarinnar í þessum málum. Við unnum Suður-Kóreu og Danmörku sem eru í öðru og þriðja sæti. Við höfum verið ofarlega á þessum lista en náðum sem sagt fyrsta sæti þarna og það er metnaðarfullt verkefni að segja að við ætlum að vera áfram meðal fremstu þjóða í heimi. Án efa hefur verkefnið Ísland ljóstengt haft mikil áhrif þar sem við höfum hreinlega sagt: Við ætlum að koma ljósleiðaratengingum inn á hvert heimili í dreifbýli. Það hefur verið forgangur okkar og við erum með það fjármagnað í fjármálaáætlun og áætlunum sem koma fram í fimm ára aðgerðaáætluninni. Við ljúkum því vonandi á árinu 2020, í síðasta lagi 2021 — og þeir fjármunir eru til.

Það eru fleiri þættir sem gera að verkum að við náum þarna fyrsta sæti. Við höfum m.a. mjög öflug fjarskiptafyrirtæki sem hafa verið að keppa á markaði og við höfum horft til þess að þau fyrirtæki taki utan um þéttbýlisstaðina. Menn hafa farið þá leið að vera með svokallað ljósnet sem er kannski eins nálægt því og hægt er án þess að vera með tenginguna beint inn á heimilið. En ekki er óeðlilegt að sú krafa komi upp hjá þessum aðilum, eins og við sjáum hér á höfuðborgarsvæðinu. Þar hafa menn reyndar lagt tvo, þrjá eða fleiri kapla inn í hvert hús — og er kannski talsverð offjárfesting þar. Engu að síður er samkeppni á þessum markaði og markaðsfyrirtækin berjast um að geta þjónustað og selt vörur sínar. Ég vona bæði og treysti því að þau séu tilbúin að taka þátt í þessu. Þetta er hins vegar einn þáttur sem við í ráðuneytinu höfum velt fyrir okkur, hvernig þurfi að taka á ef það gerist, sem ég hef reyndar enga trú á, að fyrirtækin taki ekki á þessu sjálf.