149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

fimm ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019--2023.

403. mál
[19:30]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég starfaði í tengslum við NATO-þingið, sem formaður Íslandsdeildar NATO, og þar hefur mikil umræða staðið allt árið og undanfarin ár um netöryggismál og slíka þætti. Við erum með gervigreindina og erum að ganga inn í fjórðu iðnbyltinguna og gríðarlega tækniþróun. Almennt er orðið svo að menn telja þetta eina helstu ógn í heiminum, það eru netöryggismálin og kerfin, hvort sem eru fjarskiptakerfi eða raforkukerfi, eins og dreifingin og slíkt, eins og við erum að kynnast hér á landi og Landsnet hefur átt í.

Í því stefnumarkandi plaggi sem hér er lagt fram eru nokkrir punktar sem tengjast þessum málum. Það sem mig langaði kannski fyrst og fremst að spyrja út í er þetta erlenda starf, samstarf um netöryggismálin. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra rétt áðan, í fyrri ræðum, að samstarf er við Norðurlöndin og NATO og annað. Ég tel gríðarlega mikilvægt að við fáum að verða hluti af stærri heild í þessum málum. Eistlendingar hafa sett upp miðstöð. Bretar settu sína netöryggismiðstöð upp á síðasta ári, mikla stofnun, og menn eru mjög að huga að þessu. Persónulega hef ég mikinn áhuga á því að við náum kannski meiri tengingu um þessi mál. Það eru grundvallarmál upp á samkeppnishæfni landsins til lengri tíma að tryggja netöryggismál, fjarskipti og annað sem tengist þessu. Ég spyr hvort hann gæti aðeins dýpkað þá umræðu sem snýr að þessu erlendra samstarfi sem mundi tengjast utanríkismálum.