149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

fimm ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019--2023.

403. mál
[19:34]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum tvær þingsályktunartillögur saman, annars vegar um stefnu í fjarskiptum fyrir árin 2019–2033 og hins vegar fjarskiptaáætlun til fimm ára. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa framlagningu og verð reyndar að viðurkenna að ég er ekki búin að lesa stefnuna algerlega í þaula.

Mig langar að byrja sérstaklega á að nefna það og þakka samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu fyrir mjög vel unnin störf þegar kemur að samræmingu og samþættingu áætlana sem undir ráðuneytið heyra. Ég hef fengið smá kynningu á því starfi sem átt hefur sér stað innan ráðuneytisins og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt því að við höfum að mörgu leyti staðið okkur vel í að setja okkur alls konar stefnur. En það er auðvitað gríðarlega mikilvægt líka að þær séu samræmdar og samþættar, þannig að ég fagna því mjög sem verið er að vinna í ráðuneytinu á því sviði.

Það var í rauninni tvennt eða þrennt sem mig langaði að koma sérstaklega á framfæri undir þessari umfjöllun, annars vegar það sem rætt var af síðustu ræðumönnum, hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni og hæstv. ráðherra svaraði ágætlega, varðandi netöryggismálin sem ég tek undir að eru gríðarlega mikilvæg. Ráðherra svaraði því til — ég held að Oxford-háskólinn hafi einmitt farið yfir það, er með svona ákveðið líkan og mat stöðu netöryggismála hérlendis. Mér finnst nefnilega mjög mikilvægt það sem sett er niður í áætluninni um að efla menntunina, fjölbreytta menntun á sviði netöryggismála, aðstoða aðila við að komast t.d. í samkeppnir og á ráðstefnur og annað sem að þessu snýr. Ég held að þetta sé mikilvægara en við áttum okkur kannski á.

Þá langar mig þessu tengt að fara aðeins út í rafræna stjórnsýslu. Við höfum oft og tíðum státað okkur af því að vera svo framarlega þegar að þeim hlutum kemur, þá kannski sérstaklega af því að hér eru svo margir með nettengingar og tölvur að við ættum að hafa mjög gott aðgengi til að búa til mjög góða rafræna stjórnsýslu. En því miður erum við bara mjög slök í því þegar verið er að mæla okkur og bera okkur saman við aðrar þjóðir. Við þurfum að vinna töluvert að því. Og þá kemur kannski svolítið að samþættingu áætlana og samþættingu þvert á ráðuneyti og þvert á stofnanir hvernig við vinnum að þeim málum. Við höfum sannarlega alla burði til þess og við ættum að standa okkur svo miklu betur þegar kemur að því að þróa rafræna stjórnsýslu. En þá er auðvitað mjög mikilvægt á sama tíma að netöryggið sé í lagi og það þarf að fylgja.

Nú var mér það ekki fullkomlega ljóst áður en ég steig í pontu hvort þjóðskrá félli undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. — En gott að ég sé að hæstv. ráðherra kinkar kolli, því að ég sé að það er töluvert minnst á þjóðskrá. Í 12. punkti, undir markmiðum númer 3, um hagkvæmni og skilvirkni í fjarskiptum, er talað um að „gagnagrunnur þjóðskrárinnar verði endurbættur kerfisbundið í áföngum til að koma til móts við breytingar í löggjöf og aukna sjálfvirkni tilkynninga í þjóðskrá, og til að uppræta bótasvik og mæta auknum kröfum samfélagsins um upplýsingar um réttindi og stöðu einstaklinga.“ Þá get ég ekki látið hjá líða að nefna það, ég veit ekki hvort það er gagnagrunnurinn eða tölvukerfið nákvæmlega eða hvað það er, ég ætla að leyfa mér að nota orðin: aftur í fornöld.

Ég ætla að taka dæmi um annað mál sem við höfum rætt er lýtur að réttindum barna sem eiga tvö heimili, þ.e. foreldrar fara með sameiginlegt forræði og barn býr í rauninni á tveimur heimilum. Það virðist vera þjóðskrá einhvern veginn mjög erfitt að koma þeim skilaboðum út til aðila sem á þurfa að halda að það séu tveir foreldrar sem raunverulega hafa forræði yfir viðkomandi barni. Ég tek dæmi: Móðir fór með son sinn í banka og ætlaði að stofna bankareikning, en það vill svo til að sonurinn er með skráð lögheimili hjá föðurnum. Þá var sagt: Nei, nei, við getum ekki stofnað bankareikning hér, hann verðar að koma með föður sínum þar sem hann er með skráð lögheimili, eða þá að þú þarft að vera með staðfestingu á því frá þjóðskrá að þú sért raunverulega með forræði yfir barninu þínu. — Þetta er náttúrlega algjörlega út í hött.

Ég átta mig á að skólarnir eru með einhverjum hætti búnir að leysa þetta með sín innri kerfi, eins og Mentor og annað, þar sem er búið að opna fyrir aðgengi allra að slíku. En þegar kemur að svona litlum þáttum, eins og til að mynda það dæmi sem ég þekki, þá er það ekki gott. Og ég þekki líka dæmi þegar foreldrar eru að kaupa heimilistryggingu þá virðist vera ofboðslega erfitt að sannfæra viðkomandi með einhverjum hætti að fleiri búi á heimilinu en raunverulega eru með skráð lögheimili.

Ég veit að við erum með frumvarp hérna og við höfum fjallað um þetta. Ég veit að forveri hæstv. ráðherra í innanríkisráðuneytinu, Ólöf Nordal heitin, lét gera skýrslu um það hvernig við gætum unnið á þeim málum er snerta börn með tvö heimili, en þarna er bara svona einn lítill þáttur sem ætti að vera svo miklu auðveldari ef gagnagrunnurinn og kerfið hjá þjóðskrá væri í lagi. Ég vil brýna hæstv. ráðherra að flýta þessu ferli eins og kostur er, því að ég held að að mörgu leyti sé lagaumhverfið í góðu lagi þegar kemur að þessum málum. En það er oft eins og tölvan segi nei þegar kemur að framkvæmdinni. Það er kannski helst þetta sem ég vildi nefna.

En svo er líka komið inn á póstmálin í stefnunni. Hér segir, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld taki á þeim gríðarlegu breytingum sem nú standa yfir á póstþjónustu sem felast í mikilli fækkun bréfasendinga og fjölgun pakkasendinga. Einkaréttur Íslandspósts á sviði póstþjónustu verði afnuminn með lögum og opnað verði fyrir samkeppni á póstmarkaði. Áfram verði tryggður aðgangur að lágmarkspóstþjónustu um allt land, þ.e. alþjónustu.“

Nú veit ég að hæstv. ráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi sem er í umhverfis- og samgöngunefnd er þetta varðar. Og við erum með til umræðu eiginlega neyðarlán til Íslandspósts í tengslum við fjárlögin.

Ég vil því brýna okkur í að við hugum að því hvernig þeirri þjónustu eigi að vera háttað til lengri tíma litið, því að það er alveg ljóst að við erum í rauninni búin að keyra út í skurð með hana eins og hún er í dag og beiðni um þetta neyðarlán sýnir það svo sannarlega. Það kann að vera að það sé í frumvarpinu. Mér finnst ég ekki sjá alveg að það taki að öllu leyti á þessum efnum. En ég held nefnilega, þrátt fyrir að við treystum stjórn Íslandspósts ágætlega og þeim sem þar fara með völd, að pólitíkin þurfi líka að taka ákvörðun um það hvernig þessum málum eigi að vera háttað til lengri tíma litið.

En ég hef þetta ekki lengra og þakka fyrir þessa framlagningu og brýni okkur áfram í þessum verkefnum.