149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[19:42]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Eins og forseti sagði er hér mælt fyrir tillögu til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Þingsályktunartillagan sem hér er lögð fram, þrátt fyrir á þingskjali standi að það séu einungis félags- og jafnréttismálaráðherra, er lögð fram af ráðherrum félags- og jafnréttismála, dómsmála, heilbrigðismála, auk mennta- og menningarmála. Hún á sér langa sögu eða allt frá árinu 2014 þegar þau Eygló Harðardóttir, þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, Ólöf Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, og Illugi Gunnarsson, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, undirrituðu samstarfsyfirlýsingu um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Með yfirlýsingunni staðfestu ráðherrarnir vilja sinn til að vinna saman gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og niðurbrjótandi áhrifum þess sem og vilja til að auka fræðslu og forvarnastarf, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála.

Í kjölfarið var skipaður stýrihópur undir forystu velferðarráðuneytisins en hann er skipaður tveimur fulltrúum frá hverju ráðuneytanna þriggja. Hlutverk hans var að hafa umsjón með samstarfinu og vinna áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Á starfstíma stýrihópsins hafa átt sér stað umtalsverðar breytingar. Einkum er um að ræða stjórnarfarslega breytingarinnar. Á starfstímanum hafa tvisvar sinnum orðið ríkisstjórnarskipti, ráðherrarnir í þeim ráðuneytum sem koma að þessari þingsályktunartillögu og tekið hafa við keflinu í kjölfar myndunar nýrrar ríkisstjórnar hafa hins vegar allir verið sammála um að þessu mikilvæga verkefni skyldi haldið áfram.

Í öðru lagi hafa átt sér stað verulega samfélagslegar breytingar sem sýna okkur betur en nokkru sinni að ofbeldi er alvarlegt þjóðfélagsmein, ekki síst kynbundið ofbeldi sem dregið hefur verið fram í dagsljósið með frásögnum einstaklinga sem stigið hafa fram undir merkinu #metoo. Samstarfsyfirlýsingin kvað einnig á um að efnt skyldi til samráðs bæði á landsvísu og innan svæða, milli félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis, lögreglu og ákæruvalds. Athyglinni skyldi einkum beint að ofbeldi gegn börnum, ofbeldi í nánum samböndum, kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi og ofbeldi gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum. Markmiðið var ekki síst að bæta verklag við fyrirbyggjandi aðgerðir og rannsóknir ofbeldismála.

Boðað var til funda á landsbyggðinni en landinu var skipt í níu svæði, Suðurland, Norðurland eystra, Norðurland vestra, Austurland, Vestfirði, Vesturland, Suðurnes, Vestmannaeyjar og höfuðborgarsvæðið. Markmiðið var að ná saman lykilaðilum á hverju landsvæði, þar með talið félagsþjónustu, sérfræðiþjónustu, sveitarfélögum, barnaverndaryfirvöldum, lögreglu, heilbrigðisþjónustu og skólastjórnendum og fleirum með það fyrir augum að leggja grunn að svæðisbundnu samstarfi um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Samtalið við landsbyggðina hefur skilað sér inn í þingsályktunartillöguna en umræðuefnin voru ólík á milli svæða. Alls staðar kom fram mikill áhugi og vilji meðal heimamanna til að efla samstarf á þessu sviði. Má m.a. sjá merki um svæðisbundið samstarf á þessu sviði í nýjum verkefnum á Norðurlandi eystra og Austurlandi.

Í kjölfar funda hópsins hafa fulltrúar verkefnisins Byggjum brýr, brjótum múra farið á sömu svæði og efnt til samráðs um varnir og viðbrögð við ofbeldi í nánum samböndum. Við gerð þingsályktunartillögunnar hefur verið lögð rík áhersla á víðtækt samráð, m.a. á fjölmennum vinnufundi sem fram fór í Iðnó í upphafi árs 2016. Þangað voru kallaðir til fjölmargir aðilar, svo sem fulltrúar stofnana, sveitarfélaga, háskólasamfélagsins, frjálsra félagasamtaka og aðrir sem starfa og til þekkja á þessu sviði. Vinnufundurinn skilaði góðum árangri en auk þess hefur stýrihópurinn átt marga fundi með sérfræðingum á sínu sviði sem lagt hafa þessari vinnu lið.

Þingsályktunartillagan tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun þar sem m.a. kemur fram að stuðla skuli að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla menn, tryggja öllum jafnan aðgang að réttarkerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir fyrir alla menn á öllum sviðum. Þá tekur aðgerðaáætlunin mið af samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi, samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, samningi Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali, samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misbeitingu og kynferðislegri misnotkun og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi og bókun við þann samning til að koma í veg fyrir, berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn. Meginmarkmiðið með aðgerðunum er að stuðla að vakningu um málefnin með forvörnum og fræðslu, bæta verklag og málsmeðferð innan réttarvörslukerfisins og efla stuðning við þolendur. Sérstök áhersla er lögð á eftirfarandi þætti:

Í fyrsta lagi að ofbeldi í íslensku samfélagi verði ekki liðið. Í öðru lagi að komið verði á markvissri fræðslu og forvörnum gegn hvers konar ofbeldi, einkum í skólakerfinu, á íþrótta- og æskulýðsvettvanginum, á vinnustöðum og í stafrænum heimi. Í þriðja lagi að stuðlað verði að heildstæðri umgjörð um meðferð ofbeldismála innan réttarvörslukerfisins sem leiði af sér aukna skilvirkni, betri samskipti milli stofnana og upplýstara starfsumhverfi. Í fjórða lagi að þolendur eigi greiðan aðgang að upplýsingum og þjónustuúrræðum án tafar í kjölfar ofbeldis. Í fimmta lagi að samstarf og samhæfing verði efld til muna í þjónustu við þolendur ofbeldis, m.a. á milli ríkisstofnana, sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka.

Aðgerðunum er skipt niður í þrjá hluta. Í fyrsta lagi vakningu sem felur í sér forvarnir og fræðslu með áhrif á heilbrigð samskipti, ráðgjöf og snemmtæk viðbrögð. Í öðru lagi viðbrögð við ofbeldi með áherslu á bætt verklag og málsmeðferð innan réttarvörslukerfisins. Í þriðja lagi valdeflingu með áherslu á samhæfingu og þverfaglegt samstarf í þjónustu við þolendur ofbeldis. Margar aðgerðirnar lúta að réttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi. Þær taka einkum til forvarna og fræðslu og falla undir A-hlutann en einnig eru nokkrar aðgerðir í B-hluta til þess fallnar að vernda börn og bæta málsmeðferð í málum er varða þau, hluti C um valdeflingu, samstarf og samhæfingu fjallar á hinn bóginn fyrst og fremst um úrræði, stuðning og samráð í málum fullorðinna þolenda ofbeldis en ekki er um að ræða tillögur að aðgerðum í málum barna sem hafa verið beitt ofbeldi. Stuðningur, ráðgjöf og önnur úrræði fyrir börn í kjölfar ofbeldis fer eftir ákvæðum barnaverndarlaga.

Alls eru aðgerðirnar 28 og hér ætla ég að nefna dæmi um nokkrar þeirra. Fyrst vil ég nefna að útbúið verði fræðsluefni um ofbeldi sem hentar leikskólabörnum, samhliða fái starfsfólk leikskóla leiðbeiningar um notkun þess og viðbrögð, í kjölfar fræðslu, þar á meðal um tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum, en almennt berast færri tilkynningar til barnaverndar frá leikskólum en grunnskólum. Aðgerðin er liður í að stuðla að því að starfsfólk leikskólanna geti greint svo fljótt sem auðið er ef barn er beitt ofbeldi og að slíkt sé tilkynnt til barnaverndarnefndar.

Önnur aðgerð snýr að því að skipa starfshóp sem fær það hlutverk að greina núverandi heimildir stofnana og félagasamtaka sem starfa með börnum til að afla upplýsinga úr sakaskrá og meta þörfina á mögulegum úrbótum. Markmiðið með aðgerðinni er að tryggja að einstaklingar með brotaferil verði ekki ráðnir til starfa með börnum.

Dæmi um enn aðra aðgerð er stuðningur við þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi. Um er að ræða sambærilegt úrræði og Bjarkarhlíð er hér á höfuðborgarsvæðinu. Þar verði veitt sama þjónusta og ráðgjöf fyrir fullorðna einstaklinga sem beittir hafa verið ofbeldi, þar með talið kynferðisofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum eða eru brotaþolar í mansalsmálum og/eða vændi. Þá er lagt til að komið verði á fjölbreyttari meðferðarúrræðum fyrir gerendur í ofbeldismálum með það að markmiði að koma í veg fyrir endurtekin ofbeldisbrot. Starfshópur sem ég hef skipað starfar nú að því að kortleggja og skilgreina þjónustuþörf fyrir fullorðna gerendur þegar kemur að ofbeldi.

Stýrihópurinn sem vann að þessari þingsályktunartillögu hefur einnig fjallað um nokkur málefni sem ekki koma fram í formi aðgerða í þessari áætlun en talið er rétt að halda til haga. Má þar nefna aðstoð við þolendur eineltis á vinnustað þar sem brýn þörf er á að bæta aðgang að ráðgjöf sérfræðinga og uppbyggilegri meðferð. Þá er þörf á heildarvitundarvakningu í samfélaginu um að ofbeldi verði ekki þolað, hvorki á vinnustöðum, í félagsstarfi né á heimilum, en um þetta mætti gera víðtækan samfélagssáttmála.

Einnig hefur verið rætt um að þörf sé á fleiri rannsóknum á sviði ofbeldis sem snúa m.a. að birtingarmyndum ofbeldis, umfangi þess, forvörnum, aðkomu réttarvörslukerfisins og stöðu þolenda. Slíkar rannsóknir eru forsenda stefnumótunar stjórnvalda á þessu sviði. Í þessari þingsályktunartillögu er lögð áhersla á að slíkar úttektir séu unnar af óháðum fagaðilum á sviði innan félags- og heilbrigðisvísinda en rétt er að geta þess að þrjár umfangsmiklar rannsóknir standa nú yfir. Ein lýtur að kostnaði heilbrigðiskerfisins vegna ofbeldisbrota, önnur að öflun ítarlegra upplýsinga um umfang og eðli ofbeldis á Íslandi og sú þriðja um áhrif áfalla á heilsufar kvenna.

Ég vil í lokin nefna sérstaklega skjal dómsmálaráðuneytisins um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins og tillögur að aðgerðum 2018–2022 sem stjórnvöld hafa þegar samþykkt. Þar er m.a. að finna aðgerð sem stýrihópurinn sem vann þessa þingsályktun ræddi sérstaklega og lýtur að réttarvörslukerfinu og viðkvæmum hópum, svo sem um aðkomu réttargæslumanna fatlaðs fólks við rannsókn mála þar sem grunur leikur á ofbeldi í garð seinfærs fólks. Þetta er ákaflega mikilvægt atriði og mér er kunnugt um að samstarf réttarvörslukerfisins og réttargæslumanna er að festast í sessi.

Forsenda þess að þingsályktunartillagan komist farsællega til framkvæmda byggir á því að ráðuneytin, sem verða fjögur um næstu áramót en voru þrjú við vinnslu þessarar tillögu, þrátt fyrir að það væru fjórir ráðherrar, vinni saman að framkvæmd hennar. Þá byggir hver og ein aðgerð á því að tilnefndir samstarfsaðilar leggi hönd á plóginn. Saman getum við náð árangri og er ráð fyrir því gert að þau ráðuneyti sem koma að þingsályktunartillögunni sameinist formlega um eftirfylgni við þessar aðgerðir.

Einnig er gert ráð fyrir að ráðuneytin undirbúi og boði árlega til landssamráðsfunda þar sem fulltrúum ráðuneyta, ríkisstofnana, sveitarfélaga, frjálsra félagasamtaka, rannsóknastofnana og annarra sem láta sig þessi mál varða gefist tækifæri til að bera saman bækur sínar, kynna nýjungar, niðurstöður rannsókna og koma á framfæri tillögum til úrbóta með það að markmiði að draga úr og koma í veg fyrir ofbeldi. Staðan á framkvæmd aðgerða í þessari þingsályktunartillögu yrði m.a. kynnt á þeim árlegu fundum.

Með samþykkt þessarar þingsályktunartillögu myndi skapast verðmætt tækifæri og sameiginlegur vettvangur til þess að ýta úr vör verkefnum sem stuðla að bættu og öruggara samfélagi. Því er það ósk okkar allra að við upplifum okkur ávallt örugg hvar sem við erum stödd og að við getum treyst því að réttlát málsmeðferð og viðeigandi bjargir séu ávallt til staðar þegar takast þarf á við ofbeldi og afleiðingar þess.

Eins og ég sagði í upphafi er þetta þingsályktunartillaga sem unnin er með aðkomu fjögurra ráðuneyta og gríðarlega mikilvægt að fá hana inn til þingsins. Vonandi fær hún góða og faglega umfjöllun og ég hef óskað eftir því að að lokinni þessari umræðu verði henni vísað til hv. velferðarnefndar.