149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[19:55]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Engum blandast hugur um að hér eru alvarleg viðfangsefni og brýn til umfjöllunar. Ég ætla ekki að fara mikið efnislega í málið á þessu stigi en mig langar aðeins til að biðja hæstv. ráðherra að útskýra ákveðið atriði fyrir mér. Eins og hann nefndi standa fjögur ráðuneyti að þessari þingsályktunartillögu. Þar er talað um framtíðarsýn og viðfangsefni. Þar er talað um forvarnir og fræðslu, bætt viðbrögð og málsmeðferð í réttarvörslukerfinu. Það er ítrekað að með ofbeldi sé átt við kynferðislegt og ekki síst kynbundið ofbeldi, myndbirtingar í stafrænum miðlum og að horft verði til frásagna og umræðna sem birtast í samfélaginu undir #ég líka og #metoo. Ég tók þetta svona sundurslitið upp úr framtíðarsýninni og viðfangsefnunum.

Ég er síðan með fyrir framan mig fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu um verkáætlun og stöðu stýrihóps um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi sem var kynnt í ríkisstjórninni. Ef ég les líka upp úr því á að fylgja eftir framkvæmd aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins. Það á að endurskoða réttarstöðu brotaþola og, í tengslum við stefnumótun um stafrænt kynferðisofbeldi, móta nýja stefnu í forvarna- og fræðslumálum að því er varðar kynferðislegt ofbeldi og áreitni. Meðal verkefna hópsins er að gera tillögur um viðbrögð við #metoo-byltingunni, bæði innan Stjórnarráðsins en ekki síður í samfélaginu almennt.

Ég verð að segja, hæstv. ráðherra, að mér finnast þessi markmið og viðfangsefni svo keimlík að ég átta mig ekki alveg á því hver þessi skipting er og af hverju þarf þá sérstakt viðfang í forsætisráðuneytinu ef það fellur ekki undir þetta. Ég vildi gjarnan biðja hæstv. ráðherra að skýra þetta aðeins fyrir mér.