149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[19:57]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Jú, það kann að vera rétt að það sem fram kemur í þessari þingsályktunartillögu, sem telur mjög margar aðgerðir og fjölþættar og aðgerðaáætlun upp á einar 20–30 blaðsíður, sé að einhverju leyti líkt þeim áherslum sem lagðar hafa verið í forsætisráðuneytinu, og kannski ekki hvað síst eftir þá miklu umræðu sem varð hér síðasta vetur eftir #metoo-byltinguna. Það kann að vera að það sé einhver skörun þarna á milli.

Ég held hins vegar að það eigi ekki að skaða framgöngu þessa máls. Vegna þess að í því máli sem við vinnum með hér erum við með mjög afmarkaðar aðgerðir sem ætlunin er að ráðast í og eru þess eðlis að þær eru á ábyrgðarsviði einstakra ráðuneyta eða stofnana. Ég held að það muni aldrei skaða þó að forsætisráðuneytið sé einnig að vinna að málum sem tengjast #metoo-byltingunni, eins og ég kom inn á áðan, enda er mjög gott samstarf á milli ráðuneyta þegar kemur að þessum málum og er m.a. fólgið í því að sérstök ráðherranefnd um jafnréttismál fundar reglulega og er stýrt af forsætisráðuneytinu eins og gert er með ráðherranefndir. Þar eiga allir þeir ráðherrar sem leggja þessa aðgerðaráætlun fram sæti. Jú, það er vissulega ákveðin skörun þarna. Ég held engu að síður að sú yfirgripsmikla áætlun sem við erum með hér, sem unnin hefur verið í talsvert langan tíma á milli einstakra ráðuneyta og stofnana, sé bara jákvætt mál. Það er jákvætt að hún sé komin hingað inn og mikilvægt að hún fái brautargengi í þinginu, þrátt fyrir að unnið sé að keimlíkum málum víðar í stjórnkerfinu, sem er bara jákvætt.